Að venju er af nægu að taka í íslenskri tónlistarútgáfu í Undiröldunni og færri komast að en vilja. Að þessu sinni er það áframhaldandi kántríæðið sem runnið hefur á Sycamore Tree, nýr söngull frá Coney Island Babies og ýmislegt fleira sem tekur sviðið.
Sycamore Tree - Home Again
Home Again er annar singull Sycamore Tree af kántrískotnu EP-plötunni sem er á leiðinni. Lagið og textinn er eftir Gunna en Arnar Guðjónsson útsetur og spilar á gítar, bassa, trommur og hljómborð og Þorleifur Gaukur spilar á gítar, pedal steel gítar og munnhörpu. Lagið fer í spilun í næstu viku og kemur svo formlega út 4. september. Lagið fjallar um að leita langt yfir skammt og að týna sjálfum sér á leiðinni.
Coney Island Babies - You and Me
Hljómsveitin Coney Island Babies gaf út aðra hljómplötu sína Curbstone í sumar en lagið You and Me er tekið af henni. Curbstone var tekin upp í Stúdíó Síló á Stöðvarfirði, Stúdíó Ris í Neskaupstað og Eyranu í Reykjavík og hefur fengið prýðilega dóma.
Ryba - Stalker
Hljómsveitin Ryba er ný af nálinni, hún sendi frá sér lagið Stalker í fyrra en lagið vann sveitin úr hljóðbútum úr sínu nærumhverfi. Rybu skipa þau Heimir Gestur Valdimarsson sem spilar á gítar og syngur, söngkonan Laufey Soffía Þórsdóttir, Andri Eyjólfsson sér um rafhljóð, Baldur Hjörleifsson spilar á bassa, Kormákur Jarl Gunnarsson á Moog og Sigurður Möller Sívertsen á trommur.
Sólveig Matthildur- Last Date
Lagið Last Date er að finna á Madame Melancholia sem er væntanleg sólóplata frá Sólveigu Matthildi. Hún sendi frá sér plötuna Constantly in Love í fyrra og er kannski þekktust fyrir að vera meðlimur í Kælunni miklu.
Elli Grill ft. Byrkir B. - Við svífum
Þeir félagarnir Elli Grill og Byrkir B eða Elli hafa sent frá sér hugljúfa rappballöðu sem heitir Við svífum þar sem strákarnir eru á huggulegu nótunum, en ekki er vitað hvort það sé plata í smíðum.
Birkir Blær Óðinsson - I Want You
Birkir Blær Óðinsson sigurvegari Söngkeppni framhaldsskólanna hefur sent frá sér lagið I Want You en það er að finna á nýlegri plötu hans Patient sem kom út á dögunum.
AfterpartyAngel - Paris ou toi
Hljómsveitin AfterpartyAngel hefur sent frá sér sína fyrstu EP-plötu, rafpopp skotna post pönk plötu sem heitir Death Presence. AfterpartyAngel skipa þau Elísabet Birta Sveinsdóttir og Heimir Gestur Valdimarsson sem hafa bæði bakgrunn í kvikmyndagerð og gjörningalistum.
Asalaus - Tvíhliða orgelverk
Asalaus hefur sent frá sér tilraunakennda klassík sem var tekin upp í Hallgrímskirkju, en Asalaus var upphaflega verkefni á vegum Listhópa Hins hússins og er platan Asaleysing ávöxtur þeirrar vinnu.