Angela Merkel, kanslari Þýskalands, krefur rússnesk stjórnvöld skýringa á banatilræði við stjórnarandstæðinginn Alexei Navalny. Hún segir engan vafa leika á að honum hafi verið byrlað taugaeitrið nocvichok. Navalny er á Charité spítalanum í Berlín þar sem honum er haldið sofandi.
Merkel ómyrk í máli og krefst skýringa
Merkel var ómyrk í máli síðdegis er hún fordæmdi tilræðið við Navalny harðlega. Merkel krafðist þess að Rússlandsstjórn gæfi skýringar á tilræðinu.
Mjög alvarlegar spurningar hafa vaknað sem aðeins rússneska stjórnin getur og verður að svara.
sagði Þýskalandskanslari.
Eiturvopn frá tímum Sovétríkjanna
Novichok er efnavopn sem þróað var og framlett í Sovétríkjunum undir lok kalda stríðsins. Eitrið ræðst á taugakerfi líkamans. Rússneskir útsendarar reyndu að ráða Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans af dögum fyrir tveimur árum og notuðu novichok í tilræðinu. Skripal var háttsettur leyniþjónustumaður í Rússlandi en starfaði jafnframt fyrir bresku leyniþjónustuna. Feðginin lifðu árásina af.
Eindreginn andstæðingur stjórnar Pútíns
Alexei Navalny er einn helsti andstæðingur Vladimirs Pútíns, Rússlandsforseta. Hann veiktist hastarlega í flugi í síðasta mánuði. Rússneskir læknar og yfirvöld sögðu ekkert benda til þess þá að Navalny hefði verið byrlað eitur. Rússnesk yfirvöld heimiluðu að Navalny yrði fluttur á Charite-sjúkrahúsið í Berlín nokkrum dögum eftir að hann veiktist. Þar hafa læknar nú kveðið upp þann úrskurð að óyggjandi sé að Navalny hafi verið byrlað novichok.
Enginn vafi á sekt rússneskra stjórnvalda.
Rússnesk yfirvöld hafa lítið tjáð sig um ásakanir Þjóðverja, en Ivan Zhdanov, talsmaður samtaka Navalnys sem berjast gegn spillingu í Rússlandi, sagði á Twitter að enginn vafi léki á rússnesk yfirvöld hefðu byrlað Navalny eitur, engir aðrir hefðu aðgang að novichok.