Armenska tónskáldið Aram Katsjatúrían kom hingað til lands 1951 og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Þjóðleikhúsinu. Sverðdansinn úr ballettinum Gayane er þekktasti smellur hans.
Armenska tónskáldið Aram Katsjatúrían (1903–1978) var eitt kunnasta tónskáld Sovétríkjanna á sinni tíð, ekki síst fyrir balletta sína, Gayane og Spartakus. Gayane varð til um 1939 en var frumsýndur af Kirov-ballettinum árið 1942. Í öðrum þætti ballettsins eru sýndir dansar frá hinum ýmsu ríkjum Sovétríkjanna, og Sverðdansinn er einmitt dans frá Armeníu, svo hér var Katsjatúrían á heimavelli.
Á árum kalda stríðsins voru tíð menningarsamskipti milli Íslands og Sovétríkjanna, og Íslendingar nutu góðs af því að hingað voru sendir tónlistarmenn á heimsmælikvarða til að kynna list heimalands síns. Katsjatúrían var einn þeirra; hann kom hingað til lands vorið 1951 og stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands á tvennum tónleikum í Þjóðleikhúsinu við gífurlegan fögnuð viðstaddra. „Fólk klappaði og stappaði í gólfið,“ sagði í forsíðufrétt Þjóðviljans, og viðtökurnar voru slíkar að hljómsveitin þurfti að endurtaka Sverðdansinn vinsæla.