Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, á ekki von á því að rukka íslenska ríkið fyrir útlagðan kostnað fyrirtækisins vegna skimunar á landamærum. Hann segir fráleitt að hann ætli að setja á fót farsóttarstofnun fyrir íslenska ríkið, en það sé brýnt að stjórnvöld geri það.

Fram kom í máli Björns Inga Hrafnssonar, ritstjóri Viljans, í Kastljósi í kvöld að Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, ætli að setja á laggirnar Farsóttastofnun Íslands.

Björn Ingi segir frá því í nýrri bók sinni að Kári ætli að fjármagna stofnunina með því fé sem hann ætli að rukka ríkið um fyrir skimun á landamærum, sem sé á bilinu einn til tveir milljarðar króna, og gefa síðan íslensku þjóðinni stofnunina.

„Ég kannast við þessa hugmynd og ég hef sjálfsagt fært hana í tal við Björn Inga. Af stráksskap mínum þá fannst mér það svolítið sniðugt að ýta við ríkinu til að stofna farsóttarstofnun með því að taka peninga sem yrðu rukkaðir fyrir skimun á landamærum og setja í þannig stofnun. En þetta er bara svona ein af þessum  hugmyndum sem menn ræða um á kaffistofum,“ segir Kári.

Mikilvægt að farsóttarstofnun verði að veruleika

Hann segir mikilvægt að slík farsóttarstofnun verði sett á fót, en það verði ekki á hans vegum.

„En ég mun halda áfram að hvetja stjórnvöld til þess að gera það og það sem fyrst, vegna þess að endanlega þá held ég að sá kostnaður sem fer í að setja saman þannig stofnun komi til með að skila sér margfaldur til baka,“ segir Kári.

Hann segir fráleitt að kostnaður Íslenskrar erfðagreiningar við skimun á landamærum hlaupi á milljörðum króna, en Íslensk erfðagreining hefur skimað marga tugi þúsunda sýna fyrir kórónuveirunni. 

Engin ákvörðun verið tekin um að rukka

„Í fyrsta lagi þá hefur engin ákvörðun verið tekin um að rukka ríkið fyrir nokkurn skapaðan hlut. Við myndum aldrei rukka fyrir þá skimun sem var gerð á meðan að faraldurinn gekk yfir. Skimun á landamærum var ekki björgunaraðgerð en mér finnst harla ólíklegt samt að við munum rukka fyrir hana,“ segir Kári. 

„Og að láta sér detta í hug að við myndum rukka einn til tvo milljarða króna fyrir þessa skimun er út í hött.“