Þrír sextán ára nemendur Tækniskólans sem gerðu heimildarmynd um mengun samfélagsmiðla og streymiveita segja að í fyrstu hafi þeir ekki trúað hversu mikil og mengandi áhrif á umhverfið notkun þeirra hefur. Öll klikk, áhorf og birtingar krefjist rafmagns sem sé oftar en ekki fengin frá gríðarstórum og mengandi gagnaverum. Heimildarmynd drengjanna um málið sigraði keppni Ungs umhverfisfréttafólks hjá Landvernd árið 2020 og er nú komin í úrslit í alþjóðlegri keppni.

Axel Bjarkar Sigurjónsson, Hálfdán Helgi Matthíahsson og Sölvi Bjartur Ingólfsson eru að vonum spenntir yfir velgengni myndarinnar. Þeir segjast hafa fengið efni hennar gersamlega á heilann þegar þeir fóru að skoða málin betur. Þó ungt fólk sé almennt meðvitað um loftlagsáhrif og náttúruvá átti fæstir sig á því að samfélagsimiðlanotkun sé hluti af vandanum. 

Drengirnir komu í viðtal í Samfélagið á Rás 1 ásamt Vigdísi Fríðu Þorvaldsdóttur verkefnisstjóra ungs umhverfisfréttafólks hjá Landernd.

Heimildarmyndin heitir Mengun með miðlum og tengist 13. markmiði Heimsmarkmiðanna, aðgerðir í loftlagsmálum. Vigdís segir mörg frambærileg verkefni hafa komið inn í keppnina og vonast til að á næstunni geti fleiri skólar tekið þátt og einnig önnur skólastig.

Þrátt fyrir að samfélagsmiðlar mengi segja strákarnir takmarkið með myndinni ekki vera að láta fólk hætta að nota þá, heldur frekar hugsa notkunina upp á nýtt svo hægt sé að minnka kolefnisfótsporið á netinu. Til dæmis sé hægt að slökkva á „autoplay“, horfa á efni á minni skjám, slökkva á Wi-fi þegar það er ekki í notkun, draga úr neyslu efnis frá streymisveitum (eins og youtube) og hreinsa ruslpóst úr pósthólfum.

Hlusta má á viðtalið í spilaranum hér að ofan (okkur á Rás 1 reiknast til að það muni ekki hafa teljandi áhrif á kolefnisfótspor þitt!)