Bandarískur ljósmyndari sem hjólaði þvert yfir Ísland og sýndi milljónum frá á samfélagsmiðlum, segir ferðina hafa gefið öðrum von um að lífið geti haldið áfram eftir kórónuveirufaraldurinn. Jökulárnar voru hans mestu áskoranir á leiðinni.

Ævintýramaðurinn Chris Burkard fór fyrir fjögurra manna hópi sem lagði af stað frá Dalatanga 19. ágúst, hjólaði nærri þúsund kílómetra þvert yfir hálendið, og kom að Látrabjargi rúmum átta sólarhringum síðar.

„Mín markmið í ljósmyndun og kvikmyndun er að sýna fólki eitthvað sem ekki er á allra vitorði og er fjarri helstu ferðamannastöðunum. Staðir sem þurfa virkilega á því að halda að fá athygli og vera varðveittir. Mér fannst það vera mikil upplifun að fara þar um á hjóli,“ segir Burkard.

Hann segir að heppnin hafi fylgt hópnum. Veðrið var frábært og hjólin héldust heil allan tímann, en að vaða kaldar jökulár var mesta áskorunin. Sérstaklega norðan Hofsjökuls.

„Við vorum fekar óttaslegin, hvort við gætum komist yfir. En svo var vatnið alveg mátulegt, og náði okkur rétt fyrir ofan hné. Við vorum einnig að bera hjólin sem voru hátt í fjörutíu kíló, og reyna að passa okkur að stíga ekki í neinar holur í botninum. Því það síðasta sem við vildum var að lenda í vandræðum og þurfa að kalla á björgunarsveitir. Við æfðum vel fyrir þessa ferð og vildum vera eins sjálfbjarga og hægt var.“

Fékk viðbrögð frá fólki um allan heim

Burkard er með yfir þrjár og hálfa milljón fylgjenda á Instagram, og gaf hann þeim innsýn í ferðalagið allan tímann. Hann segir viðbrögðin hafa verið með ólíkindum. 

„Fólk um allan heim var að fylgjast með, að maður gæti verið í öruggu landi sem hefur tekist vel á við kórónuveirufaraldurinn. Fólk sagði að þetta gæfi sér mikla von um að gera komist aftur út í hið daglega líf og farið á svona staði.“

Hann segir aldrei hafa hvarflað að sér að gefast upp, þó margir kaflar hafi tekið á.

„Í hvert sinn sem ég var að niðurlotum kominn eða átti erfiðan dag, þá minnti ég sjálfan mig á að þetta væru forréttindi og ég þyrfti að gefa mig allan í þetta.“

Þetta var fertugasta og þriðja ferð Burkard hingað til lands, en umhverfisvernd er honum sérstaklega hugleikin.

„Ég hlakka til að finna enn fleiri afsakanir til þess að koma hingað aftur. En það væri draumur að geta búið hér með annan fótinn og gefa meira að mér til samfélagsins og umhverfisins,“ segir Chris Burkard.