Nú er í gangi uppboð hjá Smekkleysu á ýmsum hlutum sem eru tengdir sögu fyrirtækisins. Á meðal þess sem hægt er að gera tilboð í er fatnaður úr tónleikaferðum, áritaðar myndir, plötur og fleira. Einn athyglisverðasti hluturinn er þó án efa gamalt og illa lyktandi sokkapar.

Eigendur Smekkleysu standa nú í breytingum á lager fyrirtækisins og er verið að færa hann til og minnka. Á meðan þessar breytingar hafa staðið yfir hafa alls kyns munir komið í leitirnar sem margir héldu að væru löngu glataðir. Einar Örn Benediktsson, Smekkleysu-prinsinn, segir að þá hafi langað að setja þessa hluti á uppboð til að reyna að finna þeim nýtt heimili. 

Á meðal þeirra hluta sem fundist hafa og eru nú til sölu má nefna gamlan jakka sem saumaður var fyrir tónleikaferð Sykurmolanna með Public Image Ltd. og New Order árið 1989. Þá eru einnig upprunalegar útgáfur af bolum tengdum Sykurmolunum og þar á meðal bolir sem eru notaðir af Einari Erni. 

Einn athyglisverðasti hluturinn er þó gamalt sokkapar í gosflösku. Einar Örn segir að góð saga sé á bak við sokkaparið. Hann hafi ávallt verið klæddur í leðurstígvél, buxur og jakka á tónleikaferð með Sykurmolunum og þegar hann kom aftur í rútuna eftir tónleika og fór úr skónum hafi lyktin ekki verið neitt sérstaklega góð. Honum datt því góð aðferð í hug til að koma í veg fyrir að sér yrði sparkað úr rútunni. „Ég setti sokkana mína ofan í flösku og skrúfaði fyrir og svo kastaði ég þeim bara á næsta stað,” segir Einar Örn. Þetta tiltekna sokkapar hafi þó ratað með þeim heim úr ferðinni og er nú til sölu. Einar Örn tekur þó fram að enn hafi ekkert tilboð borist í sokkaparið. 

Enn er verið að taka upp úr kössum og því eru stöðugt nýir hlutir að bætast við uppboðið og Einar Örn segir að á meðan hlutir komi enn í leitirnar verði uppboðið lifandi. Ástæðan fyrir uppboðinu tengist þó einnig kórónuveirufaraldrinum. „Þetta er fjáröflun fyrir okkur til að halda áfram því starfi sem við hefum gert og halda plötubúðinni opinni,“ segir Einar Örn. 

Hægt að að skoða það muni sem eru til sölu hér.

Nánar er rætt við Einar Örn í Síðdegisútvarpinu