Þekktum stefjum Rásar 1 fléttað saman.

Stefin sem hljómað hafa á Rás 1 í tímans rás eru orðin æði mörg: fréttastef, tilkynningar, dánarfregnir og jarðarfarir, og svo vitaskuld einkennisstef tiltekinna þátta. Hrafnkell Orri Egilsson (f. 1974) fékk það verkefni að flétta nokkur vel þekkt stef saman í stutta syrpu í tilefni þessara tónleika. Hér má spreyta sig á að hlusta eftir kunnuglegum stefjum, og syrpunni lýkur á núverandi einkennisstefi Rásar 1, sem tónskáldið Hugi Guðmundsson (f. 1977) samdi árið 2016. Hugi segir að í stefinu sé „eitt lykilmótíf, þar sem bókstafirnir R, Ú og V eru faldir í stefinu. Músíknördarnir geta pælt í því.“


Í fimmta sinn efna Sinfóníuhljómsveit Íslands og RÚV til glæsilegra tónleika í beinni útsendingu frá Hörpu – nú til þess að fagna því að 90 ár eru frá stofnun Ríkisútvarpsins og 70 ár frá fyrstu tónleikum hljómsveitarinnar. Efnisskráin spannar allt frá Jóni Múla til Igors Stravinsky og rifjaðar upp merkar stundir í tónlistarsögu landsmanna. Fram koma meðal annarra Emiliana Torrini, Elmar Gilbertsson, Dísella Lárusdóttir, Sigríður Thorlacius, Sigurður Guðmundsson, Páll Palomares og Mótettukór Hallgrímskirkju. Daníel Bjarnason stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands en Guðni Tómasson og Halla Oddný Magnúsdóttir kynna verkin.