Sigurjón Vídalín Guðmundsson sem hyggst flytja inn milljón ánamaðka til áburðaframleiðslu segir bændur sem stunda lífræna ræktun hafa verið að bíða eftir áburði af þessu tagi. Hann segir ánamaðkana enga ógn við íslenskt vistkerfi en í gær veitti Umhverfisstofnun leyfi fyrir innflutningi á milljón haugánum.
Sigurjón Vídalín Guðmundsson hjá GeoTækni segir að vöntun sé á svona möðkum á Íslandi, þeir finnist vissulega en ekki í nógu miklum mæli fyrir moltuvinnsluna. „Því þeir lifa í efstu 20-30 sentímetrum jarðvegsins og þola ekki frost. Þeir hafa fundist á örfáum stöðum á jarðhitasvæðum en ekki í neinu magni.“ Maðkarnir milljón sem Sigurjón flytur inn verða þess vegna innandyra. „Þeir þurfa kjöraðstæður til að ná hámarksframleiðslu á lífrænum áburði.“ Maðkarnir eru geymdir í kössum og á einu ári ættu þeir að hafa fjölgað sér upp í 6-8 milljónir. „Þeir éta þennan lífræna úrgang, moltu, og skila honum frá sér. Það þarf að dreifa honum yfir þá sirka annan hvern dag. Þessi kassar eru þannig að þú getur skafið undan þeim og þar safnast áburðurinn saman með tímanum. Svo þarf bara að meðhöndla hann með sigtun og smá eftirvinnslu til að vera með hreinan ormaskít, ef maður getur sagt sem svo.“
Að sögn Sigurðar er lítil hætta á að ormarnir sleppi út eða skemmi íslenskt vistkerfi. „Enda getur þetta ekki mengað íslenska náttúru meira en orðið er. Þeir hafa greinilega flust hingað til lands með innflutningi á mold eða plöntum og haldið lífi bara nálægt heitum svæðum. En þar sem ég yrði með þetta kemur frost í jörðu og þeir myndu allir drepast ef svo ólíklega vildi til að þeir slyppu út.“ Áburðarframleiðslugeta haugána var uppgötvuð fyrir meira en fjórum áratugum og Sigurður segir að um allan heim séu starfandi vinnslustöðvar eins og þær sem hann hyggst setja upp. „Það hefur sýnt sig með umfangsmiklum rannsóknum að þessi áburður er sennilega einn sá besti sem þú getur fengið. Hann veitir vörn gegn sjúkdómum og eflir vaxtahraða og ónæmi plantna.“ Þá er hann lífrænt vottaður og þess vegna hægt að nýta hann í hvers konar lífræna ræktun, og Sigurður segir bændur á Íslandi í þeim geira hafa verið að bíða eftir slíkum áburði til að auka framleiðslugetu sína.
Andri Freyr Viðarson ræddi við Sigurjón Vídalín Guðmundsson í Síðdegisútvarpinu.