Afmælistónleikar Páls Óskars eru á meðal þeirra fjölmörgu viðburða sem Rigg viðburðir hafa þurft að fresta eða hætta við vegna kórónuveirufaraldursins. Friðrik Ómar Hjörleifsson söngvari og eigandi Rigg segir að tónlistarmenn séu orðnir langþreyttir eftir margra mánaða tekju- og viðburðaleysi.

Tónlistarbransinn varð fyrir þungu höggi þegar skall á með heimsfaraldri og tónlistarfólk hefur setið heima mánuðum saman, margt af því nánast tekjulaust. Friðrik Ómar, sem er vanur að standa fyrir fjölmörgum tónleikum á ári hverju, segir að fyrstu vikurnar eftir að samkomutakmarkanir voru settar á hafi hann nýtt tækifærið til að slaka á og njóta þess að fá pásu. En eftir að aðgerðir voru hertar á ný í sumar fóru að renna á hann tvær grímur og nú finnst honum, líkt og kollegum hans flestum, nóg komið enda ómögulegt að sjá fyrir um hvernig næstu misseri verða í þeirra starfi. „Maður sér ekkert hvernig árið ætlar að enda,“ segir Friðrik Ómar í Morgunútvarpinu á Rás 2.

Halda átta tónleika á einni helgi

Frá 1. mars hafa Rigg viðburðir þurft að aflýsa eða fresta öllu tónleikahaldi og margt hefur nú þegar færst yfir á næsta ár. Þar á meðal er fimmtugsafmæli Páls Óskars sem diskókóngurinn hyggst halda upp á með stórtónleikum. „Ég vona bara að hann verði ekki orðinn sextugur áður en við skellum í það afmæli,“ segir Friðrik Ómar. „Það er alla vega orðið ljóst að hann verður orðinn fimmtíu og eins.“

Nú í september fær Friðrik Ómar þó loksins tækifæri til að stíga á svið og þenja raddböndin því þau Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikkona ætla, þrátt fyrir fjöldatakmarkanir, að flytja lög Vilhjálms Vilhjálmssonar í Hofi á Akureyri. Til stóð að tónleikarnir yrðu tvennir en í staðinn fyrir að blása herlegheitin af var ákveðið að fjölga þeim í átta. Þannig geta 98 manns verið í salnum í hvert skipti. „Það er eins gott að maður verði útsofinn,“ segir Friðrik Ómar. „Við höfum aldrei prófað þetta áður en það er mikilvægt að prófa sig áfram eins og við getum í stað þess að vera bara heima undir sæng.“

„Þú ert númer 700 í röðinni“

Það hefur sannarlega kreppt að og sem fyrr segir eru margir tónlistarmenn orðnir nánast tekjulausir í ástandinu. Friðrik Ómar nýtti sér sjálfur hlutabótaleiðina um tíma en segir að hún hafi dugað skammt. „Á þessum þremur mánuðum voru lagðar inn á mig um 300 þúsund krónur. Það er ekki 75% af laununum mínum þó ég sé ekki hálaunamaður,“ segir hann. Það hafi líka tekið óralangan tíma að komast í samband við Vinnumálastofnun til að óska eftir að geta nýtt sér úrræðið. „Þú hringir og ert númer 700 í röðinni. Þetta gengur allt of hægt og ég veit um fullt af verktökum og listafólki sem gengur illa að fá þessa aðstoð.“

Tímabært að stíga á svið og fá klappið

Hann segir einnig algengt að tónlistarfólk veigri sér við því að láta í sér heyra því það megi eiga von á holskeflu af leiðindum fyrir vikið og vera sakað um væl. Það er hins vegar mikilvægt að stéttin hafi hátt og minni á sig og þá erfiðu stöðu sem hún er komin í. Friðrik Ómar leyfir sér þrátt fyrir allt að vera bjartsýnn á að ástandið skáni á næstunni og vonar innilega að hann geti haldið viðburði fyrir jólin eins og hefð er fyrir. „Eins og ég  er búinn að minnast á ætla ég að halda þessa viðburði í september og ég er spenntur að sjá hvort fólk mætir eða ekki. Það verður eins um jólin,“ segir hann. „Það er alveg til að fólk sé hrætt og maður finnur það en ég veit að í þessum stærri húsum, Hörpu, Hofi og Salnum, er farið eftir einu og öllu. Það er rosalega flott hvernig þau eru að vinna þetta.“ segir hann. „Svo er þörfin hjá gestum mikil en líka hjá okkur að stíga fram og fá klappið.“

Á morgun klukkan tólf verður haldinn rafrænn samstöðufundur tónlistarfólks sem nefnist Það er (ekki) gigg í kvöld. Að viðburðinum stendur samráðshópur tónlistariðnaðarins og Friðrik Ómar ætlar ekki að láta sig vanta.

Rætt var við Friðrik Ómar Hjörleifsson í Morgunútvarpinu á Rás 2.