Aðilar vinnumarkaðarins ættu í sameiningu að skoða þann mögulega að fresta öllum launahækkunum á árinu, að mati Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Hann segir þessa hugmynd ekki hafa verið rædda á vettvangi ríkisstjórnarinnar, enda yrði það hlutverk aðila vinnumarkaðarins að ákveða slíkt en að skynsamlegt væri að skoða þann möguleika.
„Ég var bara að varpa þessu fram til að menn væru með vangaveltur. Við erum með svolítið týnt ár. Við erum að fresta skattgreiðslum, við erum að fá frestun í bönkunum á alls konar hlutum,“ sagði Sigurður Ingi í viðtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í Kastljósi kvöldsins. „Við erum komin með tvær þjóðir, annars vegar eina sem er í vinnu og nýtur rúmlega 5 prósenta launahækkunar á þessu ári og sennilega aftur á næsta ári og síðan, því miður, stigvaxandi hóp fólks sem að er án atvinnu.“
Ráðherrann bendi á að 6 prósent fyrirtækja ætli að bæta við sig mannskap á næstunni en að 38 prósent ætli að fækka starfsfólki. „Þannig að í þessu samhengi var ég að velta því upp hvort að það væri hægt að viðurkenna það að þetta ár væri svolítið týnda árið og við myndum fresta öllu og framlengja samninga.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagði í sjónvarpsfréttum í kvöld að stjórnvöld yrðu að axla ábyrgð og hækka grunnatvinnuleysisbætur. Sóttvarnaraðgerðirnar sem gripið hafi verið til bitni hvað harðast efnahagslega á láglaunafólki. Sigurður Ingi sagði í Kastljósi að atvinnuleysisbætur hafi verið hækkaðar árið 20189 og séu samkvæmt vísitölu um 90 prósent af lágmarkslaunum.
Telur að skoða eigi alla möguleika
Finnst þér koma til greina að hækka grunnatvinnuleysisbætur? „Það er kannski eðlilegt hlutfall, þar á milli, þannig að mér finnst eðlilegt að við skoðum alla hluti en það gæti líka vel komið til greina, alveg á sama hátt og við vorum með vangaveltur og fórum til að mynda út í ferðagjöfina hvort við ættum að fara aðrar leiðir við að koma fjármunum og viðhalda svona hærra neyslustigi í landinu heldur en ella.“ Sigurður Ingi telur að horfa ætti á aðra þætti en hækkun atvinnuleysisbóta. „En að sjálfsögðu eigum við að skoða allt,“ segir hann.