Guðni Th. Jóhannesson hlustar á Skálmöld og Rammstein í frítíma sínum og myndi fá Rowan Atkinson, eða Mr. Bean, til að leika sig í bíómynd. Þetta segir hann í samtali við hina ellefu ára gömlu Fríðu Maríu Ásbergsdóttur í Krakkakastinu, sem er nýr dagskrárliður á Rás 1. Hann viðurkennir að minnast þess nánast með sorg og trega hvernig starf hans var áður en brast á með heimsfaraldri.

Guðni Th. Jóhannesson ætlaði sér lengi vel að leggja fyrir sig læknisfræði en hann langaði líka að verða atvinnumaður í handbolta. Aldrei óraði hann hins vegar fyrir því að hann myndi einn daginn gegna embætti forseta lýðveldisins. „Ég lærði sagnfræði og stjórnmálafræði í háskóla og fór að kenna sögu og skrifa bækur um liðna tíð. Á þeim vettvangi fjallaði ég talsvert um embætti forseta Íslands og þá forseta sem hafa verið hér við völd en þrátt fyrir það sá ég aldrei fyrir mér að ég myndi gegna þessu embætti,“ segir forsetinn í samtali við Fríðu Maríu Ásbergsdóttur.

Bubbi, Stuðmenn og Ellen Kristjáns í uppáhaldi

Guðni er alinn upp í Garðabæ og hefur alla tíð verið mikill bókaormur. „Ég las ótt og títt. Ég man að ég fór í sumarbúðir í Vatnaskógi í nokkur sumur og þar var að dvöl lokinni kvöldvaka síðasta kvöldið. Þá var sagt eitthvað um hvern og einn, og það var allt mjög fallegt, en það var sagt um mig að það legði mikinn bókafnyk frá minni koju því ég var bara sílesandi.“ Og enn er hann bókelskur en kveðst einnig vera alæta á tónlist. „Ég hef gaman af þungarokki eins og Rammstein og Skálmöld. Nýverið var mér bent á hljómsveitina Sabaton og ég hlusta mikið á hana þegar ég fer út að hlaupa og þarf að stytta mér stundir,“ segir Guðni sem einnig hlýðir á tónlist frá níunda áratugnum þegar vel liggur á honum, og klassíska tónlist við störf. „Stundum þegar ég er að skrifa ræðu eða ávörp set ég á Spotify popular classical music. Ég hef líka dálæti á Bubba og Stuðmönnum og Ellen Kristjáns er í miklu uppáhaldi því hún hefur svo fallega rödd. Svo er ég með lagalistann íslensk tónlist og þar kemur alltaf eitthvað upp sem er sem englasöngur í mínum eyrum,“ segir Guðni sem reiðir sig mikið á streymisveitur.

Guðni dró miða og Eliza vann stefnumót með róðrarkappanum

Konunni sinni, Elizu Reid forsetafrú, kynntist Guðni haustið 1998 í Oxford á Englandi þegar hann var í doktorsnámi í sagnfræði. Þá var Elíza í meistaranámi í sama fagi en Guðni segir ótrúlega tilviljun hafa leitt þau saman. Guðni var þá í róðrarliði skólans sem var að safna fyrir nýjum báti og það var ákveðið að fara af stað með nokkuð óhefðbundna fjáröflun. „Fólk gat keypt miða og við strákarnir í róðrarliðinu höfðum plastmál sem við skrifuðum nafnið okkar á,“ segir hann. Þeir sem keyptu miða skrifuðu svo sitt nafn á hann og laumuðu ofan í plastmál þess róðrarkappa sem þeim leist best á. „Svo dró maður úr málinu miða með nafni og varð að bjóða þeirri manneskju út að borða. Ég dró miða með nafninu Eliza,“ segir hann. „Svo leiddi eitt af öðru og hér erum við nú.“

Þau hjónin eiga fjögur börn og Guðni á líka eina dóttur úr fyrra sambandi. Fjölskyldufaðirinn nýtur sín vel í samvistum við afkvæmin og taka þau upp á ýmsu saman í frítímanum. „Mér finnst gaman að fara með krökkunum í sund og í stutt ferðalög en lengri líka. Dagsferðir hingað og þangað eru draumur í dós,“ segir hann. 

Vonar og veit að góðu tímarnir koma aftur

Aðspurður um það skemmtilegasta og leiðinlegasta í starfinu segir hann gaman að hitta fólk, bjóða heim og ferðast um víða veröld. „Ég held ég fari ekki út í hvað mér þykir leiðinlegast en sumt í þessu starfi hæfir ekki endilega minni skapgerð,“ segir hann.

Síðustu mánuði hefur kórónuveirufaraldurinn sett mikið strik í reikninginn í starfi forsetans eins og margra Íslendinga. „Starfið snýst mikið um að hitta fólk og fara hingað og þangað, halda utan, ferðast um landið og taka á móti fólki en þessu eru miklar skorður settar núna,“ segir hann. „Ég minnist þess nánast með sorg og trega hvernig starfið var áður en faraldurinn fór að herja á okkur. Þá var enginn dagur öðrum líkur og það gat verið svo fjölbreytt það sem maður hafði að sýsla hvern dag,“ segir Guðni sem horfir þó björtum augum til framtíðar. „Ég vona og veit að þeir tímar munu koma aftur en þangað til þurfum við að þreyja þorrann. En þetta er mjög fjölbreytt starf og snýst meira og minna um að eiga í mannlegum samskiptum.“

Rowan Atkinson efstur á blaði

Þegar kemur að því að velja þann leikara sem Guðni myndi helst vilja sjá í hlutverki sínu ef gerð yrði bíómynd um hann stendur ekki á svörum. „Ég myndi biðja Rowan Atkinson að leika mig og það er svipur með okkur er mér sagt,“ segir hann ákveðinn. „Mér finnst hann frábær leikari og ég hef fylgst með honum og því sem hann hefur fram að færa í viðtölum. Mér finnst hann mæla af mikilli visku um mannlegt eðli.“ Hann tekur þó fram að hann stórefist um að slík kvikmynd muni líta dagsins ljós. „En ég myndi vilja að Rowan Atkinson svaraði beiðninni um að leika mig með því að segja: Yes, but of course,“ segir forsetinn glettinn að lokum.

Viðtal Fríðu við forsetann er á dagskrá á Rás 1 klukkan 18:30 í kvöld.