Háskólastúdentar efndu í dag til mótmæla í Minsk, höfuðborg Hvíta-Rússlands, og kröfðust afsagnar Alexanders Lúkasjenkós. Hann var endurkjörinn forseti í síðasta mánuði í umdeildum kosningum. Háskólaárið hófst í dag í Hvíta-Rússlandi og þúsundir stúdenta í nokkrum háskólum efndu til mótmæla á götum úti. 

Allmargir handteknir

Lögregla og öryggissveitir réðust gegn mótmælagöngu stúdentanna og allmargir voru handteknir. Fréttamenn breska ríkisútvarpsins, BBC, urðu vitni að handtökum og segja að tveir fréttamenn hafi einnig verið fangelsaðir. Lögreglan og öryggissveitir hafa beitt mikilli hörku í tilraunum til að kveða niður mótmæli allt frá forsetakosningunum umdeildu 9. ágúst. Almennt er talið að kosningatölur séu falsaðar.

Refsiaðgerðir gegn Lúkasjenkó og nánasta samstarfsfólki

Eystrasaltsríkin ákváðu í gær að beita Lúkasjenkó og nánustu bandamenn hans refsiaðgerðum og berjast fyrir því innan Evrópusambandsins að öll ESB-ríki setji forsetann og handlangara hans á svartan lista.

Lúkasjenkó hótar gagnaðgerðum

Lúkasjenkó hótaði í dag að svara öllum refsiaðgerðum. Hvít-Rússar gætu lokað landamærunum við Brest og Grodno, sagði forsetinn. Þýskar vörur eiga þá ekki greiða leið til austurs sagði Lúkasjenkó og bætti við að veik Eystrasaltsríki skyldu fara varlega.

Mögulegt allsherjarverkfall

Óstaðfestar fréttir hafa borist af því að stjórnarandstæðingar í Hvíta-Rússlandi hyggist boða til allsherjarverkfalls til að reyna að bola Lúkasjenkó frá völdum. Svetlana Tsjíkanóvskaja, sem bauð sig fram gegn Lúkasjenkó forseta, segir að hún hafi að öllum likindum fengið 60-80 prósent atkvæða. Samkvæmt tölu yfirkjörstjórnar Hvíta-Rússlands fékk hún innan við 10 prósent en Lúkasjenkó 80 prósent. 

Mótmælin í Hvíta-Rússlandi er óvenjuleg og hið sama gildir um Tsjíkanóvskaju að því er segir í fréttaskýringu danska ríkisútvarpsins.