Svetlana Tikhanovskaya, forsetaframbjóðandi sem þurfti að flýja land eftir kosningar í Hvíta-Rússlandi, segist ekki ætla að snúa aftur fyrr en það sé öruggt. Fjöldi fólks sem starfaði við forsetakosningarnar þar í landi 9. ágúst hefur stigið fram og lýst því hvernig úrslitunum var hagrætt. 

Hundruð þúsunda hafa mótmælt niðurstöðum forsetakosninganna og haldið því fram að úrslitunum hafi verið hagrætt. Nú hefur fjöldi fólks sem starfaði við kosningarnar staðfest þann grun. Ein þeirra er Valeria Artikhovskaya sem segist í viðtali við fréttastofu AP hafa séð þegar yfirmaður kjörstjórnar tók bunka af atkvæðum greidd öðrum frambjóðendum og setti þau inn á milli atkvæða greidd Alexander Lúkasjenkó, sem síðar var lýstur sigurvegari kosninganna.

Svetlana Tikhanovskaya, sem mörg telja hinn raunverulega sigurvegara, þurfti að flýja land skömmu eftir kosningarnar þar sem hún taldi öryggi sínu ógnað. Hún segist ekki ætla snúa aftur fyrr en hún sjái merki þess að það sé öruggt, til dæmis þegar viðræður um framtíð landsins þokast áfram og pólitískum föngum verður sleppt lausum.