Á vegum Landsvirkjunar er nú verið að leggja nýjan veg með bundnu slitlagi frá Þeistareykjum í Mývatnssveit. Þó að helsti tilgangurinn sé að bæta samgöngur milli virkjana í Þingeyjarsýslum opnast spennandi ferðamannaleið á þessu svæði með nýja veginum.

Í tengslum við gerð Þeistareykjavirkjunar var haustið 2015 lokið við lagningu nýs vegar með bundnu slitlagi frá Húsavík inn að Þeistareykjum. Í júní í fyrra hófust svo framkvæmdir við annan áfanga vegarins frá Þeistareykjum í Mývatnssveit.

Lögðu nýjan veg frá grunni

Þessi hluti er 17 kílómetra langur og tengist Kísilveginum á Hólasandi nokkru norðan við Mývatn. Þar hafa starfsmenn verktakans Árna Helgasonar ehf. lagt nýjan veg frá grunni. „Það varð eiginlega að byrja á öðrum endanum til að koma slóð í gegn. Við vorum í því síðasta sumar að koma bara slóðum í gegn og keyra svo upp fyllingar þar á eftir,“ segir Helgi Reynir Árnason, verkstjóri við vegagerðina.

Gátu ekki byrjað fyrr en í júlí vegna snjóa

Þótt vegurinn væri að mestu kominn í fulla hæð í fyrrahaust var snjórinn svo mikill í vetur að vinnan í ár gat ekki hafist fyrr en í júlí. „Það var reyndar bætt aðeins í veginn þar sem hafði verið mesti snjórinn í vetur, þar sáu menn að þurfti að hækka hann og það var gert,“ segir Helgi.
„En það hefur sannarlega ekki snjóað í sumar.“
„Nei, við erum búnir að biðja mikið um rigningu því það rýkur svo mikið hérna. Það hefur ekki rignt hérna í þrjár eða fjórar vikur.“

Opnar spennandi leið um Þeistareykjasvæðið

Helsti tilgangurinn með gerð þessa nýja vegar er að bæta samgöngur og stytta leiðina milli gufuaflsstöðva Landsvirkjunar í Kröflu, Bjarnarflagi og á Þeistareykjum. En á sama tíma opnar vegurinn nýja og spennandi ferðamannaleið í gegnum Þeistareykjasvæðið. „Þetta verður náttúrulega mjög góður vegur,“ segir Helgi. „Breiður og flottur vegur og þarna ertu kominn náttúrulega með Þeistareyki inn í svæðið og svo ertu með fallega leið ofan í Húsavík. Þannig að ég held að þetta verði mikill túristavegur líka.“

Ný vegur úr Mývatnssveit til Húsavíkur

Helgi vonast til að þeirra vinnu ljúki í október en á næsta ári er nýtt útboð. Þá á að leggja efsta burðarlag og klæðningu. Haustið 2021 á vegurinn að verða tilbúinn með bundnu slitlagi. „Þá er kominn alveg heill vegur úr Mývatnssveit niður í Húsavík.“