Tónleikahald hófst aftur á Græna hattinum um helgina og er staðurinn nú nánast fullbókaður til áramóta. Vert á staðnum segist hafa verið að koðna niður meðan staðurinn var lokaður og hafi hreinlega ekki nennt að hafa lokað lengur.

Farið var eftir öllum sóttvarnareglum, aðeins mátti sitja á öðru hverju borði og aðeins 90 manns var hleypt inn en ekki 180 eins og leyfi er fyrir á staðnum. Haukur Tryggvason, vert á Græna hattinum, segir að lögreglan hafi litið við hjá þeim og verið alveg hæstánægð með framkvæmdina. 

Haukur segist vonast til þess að breytingar verði gerðar á sóttvarnareglum og þá sérstaklega að tveggja metra reglunni verði breytt í eins metra reglu. „Það breytir öllu. Sérstaklega fyrir stærri hljómsveitir, að þetta standi undir kostnaði,” segir Haukur en hljómsveitirnar sem eru bókaðar til að koma fram á Græna hattinum fá helmingi minni tekjur af miðasölu nú þegar aðeins er hægt að fylla staðinn til hálfs. 

Árið hefur verið ansi erfitt í rekstri hjá þeim stöðum sem einbeita sér að viðburðum og tónleikahaldi. Haukur segir að tekjurnar hafi farið úr því að vera mjög góðar og alveg niður í núll í tvo og hálfan mánuð í vor. Sumarið hafi hins vegar farið vel af stað alveg fram að verslunarmannahelgi. „Ég var með opið mörg kvöld í viku. Það gekk rosalega vel. Svo þurftum við að skella í lás, vorum búin að panta inn fyrir verslunarmannahelgina, það var allt klárt þegar það var klippt á það sem var alveg bölvanlegt,” segir Haukur. „Svo misstum við bæði páskana og verslunarmannahelgina sem eru tvær stærstu helgar ársins þannig að þetta var mjög slæmt. En maður þraukar samt enn þá,” segir Haukur sem er búinn að reka Græna hattinn í tæplega 18 ár. 

Nánar var rætt við Hauk í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.