Íbúar í efri byggðum Kópavogs eru uggandi yfir ógætilegum akstri ungmenna á léttum bifhjólum á göngustígum í hverfinu. Foreldri lýsir ástandinu eins og villta vestrinu og að nauðsynlegt sé að bregðast við áður en illa fer.

Mikil umræða hefur skapast meðal íbúa í hverfunum vegna glæfraaksturs og ónæðis sem honum fylgir. Hvorki gangandi vegfarendur né börn á skólalóðum virðast vera óhult. 

„Það er augljóst að þetta getur valdið mikilli slysahættu, fyrir utan hávaðann sem fylgir þessum tækjum. Þriggja ára dóttir mín greip fyrir eyrun um daginn og sagðist vera hrædd við að fara út, því það væri svo mikið af mótorhjólum. Þetta á bara ekki heima á göngustígum þar sem börn og gangandi vegfarendur eru,“ segir Guðmundur Karl Einarsson, íbúi í Kórahverfinu í Kópavogi.

Börn verða hrædd við afskipti lögreglu

Vandamálið er þegar á borði lögreglu, en í flestum tilvikum er um að ræða ósakhæf börn og það flækir málin.

„Þetta eru börn sem eru oft búin að lofa foreldrum sínum að fara að öllum reglum og gæta sín. Og þegar lögregla ætlar að hafa afskipti virðist það vera að þau verði hrædd og svífist einskis til þess að komast í flótta frá lögreglu.

Og við förum ekki með ljósum og sírenum á eftir gangstígakerfinu þar sem við stefnum þeim og öðrum vegfarendum í stórkostlega hættu,“ segir Guðbrandur Sigurðsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Foreldragæsla og aukin viðvera lögreglu í hverfinu hefur hjálpað til síðustu vikur að mati íbúa, en á meðan ekki þurfi próf til að aka þessum tækjum sé staðan erfið.

„Því þetta er eiginlega bara villta vestrið. Það geta allir verið á, þau eru oft tvo og þrjú jafnvel saman á þessu. Þannig fyrir utan ónæðið okkar, þá eru það auðvitað krakkarnir sem eru á þessum tækjum að setja sig í hættu líka,“ segir Guðmundur Karl.

„Ekki víða eftir að það verði slys“

Lögreglan undirstrikar ábyrgð foreldra, að brýna fyrir börnum þær reglur sem gilda um tækin. 

„Þetta er vandasamt að því leytinu til að nálgast þetta; að fá börnin til að fara að reglum, og geta haft afskipti án þess að nokkur hljóti skaða af. Þetta eru góð samgöngutæki ef þau eru notuð rétt,“ segir Guðbrandur.

En íbúar horfa til löggjafans og segja nauðsynlegt að herða reglur.

„Ekki bíða eftir að það verði alvarlegt slys eða jafnvel banaslys. Gerum það strax, meðan að ástandið er kannski viðráðanlegt,“ segir Guðmundur Karl.