Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að stjórnvöld beri pólitíska og siðferðislega skyldu til að hækka atvinnuleysisbætur. „Ég hlýt að segja og fullyrði það að hreyfingin stendur algerlega saman í þessari kröfu að atvinnuleysisbætur verði samstundis hækkaðar.“
Vinnumálastofnun gerir ráð fyrir að atvinnuleysi í september verði um 8,7 prósent. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í sjónvarpsfréttum mikilvægt að bregðast við auknu atvinnuleysi og ráðast í frekari aðgerðir til að mæta sögulegum samdrætti. Skapa þurfi fleiri störf og tekjutengja atvinnuleysisbætur.
Fagnar raunverulegum vilja
„Ég auðvitað fagna því ef það er raunverulegur vilji hjá stjórnvöldum að skapa góð störf sem fólk vill vinna en það er augljóst að þetta hrikalega atvinnuleysi er náttúrlega bein afleiðing af þeim sóttvarnaraðgerðum sem stjórnvöld hafa gripið til,“ sagði Sólveig Anna í viðtali í beinni útsendingu í fréttatímanum.
„Það gengur ekki að byrðarnar af þessu verði látnar á axlir þeirra sem hér hafa knúið áfram hjól atvinnulífsins - verka- og láglaunafólks - sem á núna að dæma til fátæktar vegna þess að atvinnuleysisbætur séu svo lágar. Það hefur komið í ljós að þær fjárhæðir sem var búið að eyrnamerkja til sérstakra COVID-aðgerða hafa alls ekki nýst.“
FJármálaráðherra sagði í fréttum RÚV í gær að fyrirgreiðsluúrræði hafi ekki verið gjaldfærð, þannig að það bæti ekki afkomu ríkissjóðs þótt sum þeirra hafi ekki nýst eins og ætlað var. Hann lagði áherslu á að úrræðin væru þó til staðar fyrir þá sem þurfi á þeim að halda.
Umsóknir um fjárhagsaðstoð að aukast
Atvinnuleysi meðal útlendinga mælist 19 prósent. Fjölmargir erlendir ríkisborgarar eru í Eflingu. Aðspurð segir Sólveig Anna að stjórnvöld verði að koma betur til móts við þennan hóp. „Guð minn góður. Þú getur rétt ímyndað þér hvernig hljóðið er frá þessu fólki. Fólk er að koma hingað sérstaklega til að vinna, fólk hefur verið hvatt til þess að koma hérna til þess að vinna og núna í þessari ömurlegu aðstöðu með skugga áhyggna hvílandi yfir sér hvert sem þau fara.“
Margir þeirra hafi þurft að leita til hjálparstofnana. „Þetta er fólk sem þarf að standa skil á húsaleigu, kaupa mat, passa upp á börnin sín. Ég var á fundi í dag þar sem kom í ljós að umsóknir um fjárhagsaðstoð hjá Hjálparstofnun Kirkjunnar aukast og aukast. Þetta eru innflytjendur, fólk sem er einfaldlega að koma því það hefur ekki peninga til að fæða börnin sín.“
Sólveig Anna segir að til þess að ná fram samstöðu í baráttunni þurfi að hækka atvinnuleysisbætur. „Það er komið að því að stjórnvöld hætti að hlusta á mannfjandsamleg viðhorf Samtaka atvinnulífsins og axli ekki bara pólitíska heldur líka siðferðislega skyldu sína og hækki bætur svo við getum staðið raunverulega saman í þessari baráttu.“