Stórt tökulið sem tengist bandaríska leikaranum Will Smith var við störf í Stuðlagili á Jökuldal nýlega og mikil leynd hvílir yfir verkefninu. Landeigendur, sem gáfu leyfi fyrir tökunum, lögðu mikla áherslu á að björgunarsveitirnar Jökull og Vopni sæju um öryggisgæslu meðan á þeim stóð.

Stefanía Katrín Karlsdóttir er ein landeigenda. Hún segir að kvikmyndafyrirtækið True North hafi haft samband við hana í byrjun sumars. „En það var ekki vitað um umfangið fyrr en bara á allra síðustu dögum,“ segir Stefanía í samtali við Síðdegisútvarpið. Hún telur að um 70 manns hafi verið í tökuliðinu um helgina. „Svo voru björgunarsveitir með gæslu, að stýra umferð og svoleiðis.“ Meðan á tökum stóð þurfti að vísa talsvert mörgum erlendum ferðamönnum frá þrátt fyrir að merkingar hafi verið settar upp við afleggjarann frá þjóðvegi 1. „Það var svolítið leiðinlegt, þegar fólk var búið að keyra svona langt. En það hefði átt að lesa skiltin.“

Hún segir að tökuliðið hafi gengið vel um og ekki skilið eftir sig rusl. Stefanía er raunar ekki alveg viss um að Will Smith sjálfur hafi látið sjá sig. „En það kom þyrla á laugardeginum og það er alveg vísbending um að það hafi verið hann.“ Mikil leynd hafi hvílt yfir verkefninu. „Það er nú oft ekkert verið að segja frá því fyrir fram ef einhverjir frægir frá Hollywood eru mættir á svæðið. Þetta var upplifun fyrir fámenna sveit.“ Stefanía segir að síminn sé ekki ennþá byrjaður að hringja frá kvikmyndaframleiðendum í Hollywood en maður viti aldrei. „Ég hef ekki heyrt í þeim enn. En það eru alltaf einhver tískufyrirbæri í gangi og við bara tæklum hvert verkefni fyrir sig ef þau verða. Þetta er náttúrulega íhlutun að loka svæðinu. En við erum heppin að hafa aðgang að björgunarsveitunum og það var skilyrði af okkar hálfu að ráða þá, bæði til að vera með fyrstu viðbrögð ef eitthvað kemur upp á og til að stýra aðgengi.“

Andri Freyr Viðarson ræddi við Stefaníu Katrínu Karlsdóttur í Síðdegisútvarpinu.