Einkaneysla dregst saman, vinnustundum fækkar, og samdráttur landsframleiðslu var sá mesti á öðrum ársfjórðungi sem mælst hefur frá því farið var að mæla hann hér segir Hagstofan. Þessi samdráttur er rúmlega níu prósent og er sprottinn af áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 Katrín Ólafsdóttir hagfræðingur og lektor við Háskólann í Reykjavík segir að engu síður hefðu menn jafnvel búist við að samdrátturinn yrði enn meiri vegna þess hve höggið var þungt sem skall á ferðaþjónustunni hér.
Samdrátturinn er meiri en varð í bankakreppunni 2008 og 2009 segir Katrín. Ferðaþjónustan hefur mjög mikið vægi í þjóðarbúskap Íslendinga og samdrátturinn varð meiri á í vor mörgum löndum í kringum okkur þar sem samdrátturinn hefur samt orðið enn meiri. Þó að enn sé til dæmis mikil starfsemi í byggingariðnaði og litlar breytingar hjá því opinbera geti veturinn orðið mjög þungur. Áhrifin hjá fjölda fyrirtækja sem þjóna ferðaþjónustinni séu ekki komin fram að fullu og atvinnuleysi gæti enn aukist í vetur, þvi spáð að það gæti farið í 10% í lok árs.
Tilslakanir breyta ekki öllu fyrir ferðaþjónustu úr þessu
Aukið frelsi í samskiptum breytir auðvitað töluverðu en engu síður telur Katrín ólíklegt að mikið gerist hjá ferðaþjónustunni í haust. Ferðamenn frá þeim löndum þar sem veiran er enn í uppsveiflu veigri sér við því að ferðast. Óvissan sé enn svo mikil að flestir haldi að sér höndum næstu mánuði.
Krónan sígur en verðbólgumarkmið heldur
Mikla virkni í byggingariðnaði og á fasteignamarkaði rekur Katrín til vaxtalækkana sem hafa orðið síðustu misseri og þetta sýni áhrifamátt þeirra. Gengi krónunnar hefur lækkað töluvert undanfarið og óvissa um framhaldið þar en það hefur ekki skilað sér að marki inn í verðbólgu. Katrín á ekki von á því að krónan taki dýfu á næstunni, en hún sé heldur lægri en eðlilegt telst. Lítið sé að gerast á gjaldeyrismarkaði þessa dagana.
Ekki gott að hverfa hratt frá aðgerðum stjórnvalda
Reynslan frá síðustu kreppu sýni að ekki sé gott að fara of bratt út úr aðgerðum þess opinbera til að örva hagkerfið. Katrín segir að það sé allt í lagi að ríkissjóður skuldi nokkuð, það sé auðvitað mjög pólitísk ákvörðun hvort hvenær og hvernig sé skorið niður hjá ríkinu.