Netspjall var tekið í notkun í morgun á covid.is þar sem fólki gefst kostur á að fá upplýsingar næstu daga um faraldurinn. Aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir netspjallið hugsað til þess að bregðast við fjölda fyrirspurna vegna COVID-19; veikinda, tilhögun reglna og fyrirmæla.

Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn greindi frá netspjallinu í lok upplýsingafundar dagsins og sagði markmið þess vera að straumlínulaga upplýsingaflæði. „Af því að við fáum oft gríðarlega mikið af fyrirspurnum eftir alls konar leiðum; í gegnum tölvupósta, Facebook, símtöl og annað. Við viljum endilega núna vísa fólki á covid.is.“ 

Hann hvetur fólk til að kanna fyrst hvort svör við spurningum þeirra finnist í dálknum Spurt og svarað áður en spurst er fyrir á netspjallinu. „Þar er hægt að leysa úr langflestum fyrirspurnum sem eru að koma inn,“ segir Rögnvaldur. Annað sé hægt að spyrjast fyrir um inni á netspjallinu. „Og því er þá svarað þar eða þá að fundnir eru til sérfræðingar sem eiga til svarið.“

Netspjallið verður opið frá klukkan níu á morgnana til klukkan fimm síðdegis alla virka daga, fram til fjórða september. Rögnvaldur segir að það sem komi inn utan þess tíma sé safnað saman og reynt verði að svara því á starfstíma netspjallsins.