Á tímum vesturferðanna, á árunum 1890-1924, fluttu 16.000 af 70.000 Íslendingum til Ameríku. Fyrstu Vesturferðirnar voru þó fjórum áratugum fyrr þegar Íslendingar sem tóku upp Mormónatrú fluttu til Utah.
Fjallað er um vesturferðir íslenskra mormóna í þættinum Í góðri trú sem var á dagskrá RÚV í gær. Almennt stöfuðu vesturferðirnar af erfiðu veðurfari, uppskerubresti og slæmum efnahag. Mormónarnir fluttu hins vegar af trúarlegum ástæðum, en nærri allir fyrstu landnemarnir voru mormónar.
Fyrstu Íslendingarnir sem skírðust til mormónatrúar voru hjónin Benedikt Hannesson og Ragnhildur Stefánsdóttir frá Kastala í Vestmannaeyjum. Þau voru skírð í skjóli nætur til að forðast reiði og hnýsni yfirvalda en fiskisagan flaug fljótt í 500 manna samfélagi í Eyjum og 300 manns skrifuðu undir mótmælaskjöl gegn mormónum. „Ég hef alltaf vitað af þessum sterku tengslum,“ segir Elliði Vignisson fyrrverandi bæjarstjóri í Vestmannaeyjum. „Þetta hefur hins vegar ekki verið ofarlega í umræðunni hér í Vestmannaeyjum, þessar vesturfarir Eyjamanna, fyrr en í seinni tíð. Þetta er eiginlega að sumu leyti okkar skömm, að frumkvæðið að því skuli hafa komið frá Vestur-Íslendingum, ég hefði gjarnan viljað að það hefði verið í hina áttina. Af því mér finnst ábyrgðin á þessu ekki síður liggja hjá okkur.“
Eftir að þessi tengsl komust hafa Vestmannaeyingar orðið hugfangnir af vesturferðunum. „Þessum krafti og áræðni sem þurfti til að rífa sig upp af afskekktri eyju í Norður-Atlantshafi og freista gæfunnar í nýju landi á nýjum forsendum. Við Eyjamenn tengjum svolítið við þetta, við teljum okkur vera mjög hugdjarfa. Höfum sótt björg í bú við erfiðar aðstæður í þúsund ár. Það er áhugavert að sjá hvernig þessir sömu þættir geta virkað í öðru landi og ánægjulegt að finna þennan samhug með fólkinu þar.“
Í góðri trú – saga íslenskra mormóna í Utah er þriggja þátta heimildarsería þar sem farið er ofan í saumana á áður ósagðri sögu íslenskra mormóna sem fluttu til Bandaríkjanna. Á árunum 1854-1914 er talið að um 400 íslenskir mormónar hafi flutt vestur um haf, eini hópur vesturfara sem fór af trúarlegum ástæðum. Hægt er að horfa á fyrsta þáttinn í í spilara RÚV.