Kartöflubóndi segir of algengt að nýjar kartöflur skemmist af því að þær séu ekki geymdar rétt. Eftir áhyggjur í vor stefnir í meðalár í uppskeru. Neytendur vilja minni kartöflur en áður fyrr og bændur finna aukna eftirspurn eftir umhverfisvænni vöru.

Kartöflubændur hafa haft í nægu að snúast upp á síðkastið, enda sprettan góð um allt land. „Við höfum verið að sinna markaðnum fram undir þetta, nú erum við byrjaðir að taka á hús og þá auðvitað lengjast dagarnir og menn reyna að nýta þessa góðu daga,“ segir Jóhann Ingólfsson, kartöflubóndi á Lómatjörn í Grýtubakkahreppi. 

Ekki í höfn fyrr en kartöflurnar eru komnar upp

Bændur höfðu áhyggjur af uppskerunni í vor enda voru kartöflurnar settar niður í seinna lagi eftir þungan vetur. Það hefur þó ræst úr og Jóhann segir að uppskeran stefni í að verða eins og í meðalári.

„Maður sér svo sem ekkert sem kemur í veg fyrir það í sprettu en þetta er aldrei í höfn fyrr en það er búið að ná því upp, það er þannig,“ segir Jóhann. Það geti margt klikkað, eins og frost í jörðu og bleyta. Allt að 300 tonn eru framleidd árlega á Lómatjörn en uppskeran getur sveiflast um 100 tonn á milli ára.

Jóhann segir neytandann vilja minni kartöflur en áður. „Það er svona mottóið í dag að jafnvel stoppa vöxt ef þetta er orðið stórt sem að hefði verið óhugsandi fyrir 10-15 árum,“ segir hann. Þá setji bændur þéttar niður í hryggina til að kartöflurnar verði ekki jafn stórar.

Margir hafi það verr en kartöflubændur

Hann segist ekki verða var við minni neyslu af kartöflum, þó einhverjir vilji halda því fram. Þær hafi fylgt mannkyninu lengi og á meðan það verði landbúnaður á Íslandi þá verði ræktaðar kartöflur.

Þegar Jóhann er spurður að því hvort það sé eitthvað upp úr þessu að hafa segir hann: „Það mætti vera meira, eigum við ekki að segja það. En við lifum á þessu og eins og ég segi nú stundum, að þá hafa það margir verra í landbúnaði heldur en við og það þarf nú svo sem ekkert að telja þá upp, blessaða sauðfjárbændurna.“

Hálfnað verk þá hafið er  

Í næsta nágrenni er Áshóll. Þar býr Anna Bára Bergvinsdóttir, kartöflubóndi, ásamt fjölskyldu sinni. Þau voru að hreinsa og pakka þegar fréttastofu bar að garði. Þau hafa hraðar hendur svo kartöflurnar geti verið komnar heim í eldhús neytandans daginn eftir að þær eru teknar upp. 

Fín rekja í allt sumar

Hún tekur undir það að uppskeran lofi góðu. Kartöflubændur stóli á veðrið og þrátt fyrir kalda kafla í júlí og fyrri part ágúst hafi verið blíða upp á síðkastið og fín rekja í sumar. Hún segir neytendur hafa tekið nýjum kartöflum vel enda séu flestir farnir að bíða eftir þeim í lok sumars. 

Eru einhverjar nýjar áskoranir fyrir kartöflubændur? „Það er náttúrulega umhverfisþátturinn, við höfum lagt okkar af mörkum og vorum að láta útbúa nýja poka. Þeir eru unnir úr sykursterkju, ekki jarðefnaolíu og eru því mun vistvænni heldur en þeir sem við vorum með áður,“ segir Anna Bára. 

Nýjar kartöflur þola kulda illa

Í hreinsuninni fer flusið að mestu af, kartöflurnar eru því viðkvæmar og þarf að geyma rétt svo þær grænki ekki og skemmist. Allar kartöflur á að geyma á dimmum stað. Nýjar kartöflur á að geyma í 12-15 gráðum en þegar líða tekur á haustið og nýtt flus hefur myndast má geyma þær inni í ísskáp. Anna Bára segir of algengt að nýjar kartöflur skemmist vegna þess að þær séu geymdar við röng skilyrði og erfitt sé að eiga við þetta í verslunum þar sem þær séu geymdar í mikilli birtu.

En kartöflurnar frá Áshóli má kaupa víðar en í búðum. „Það byrjaði nú svona sem verkefni hjá börnunum mínum, að selja á kantinum heima við afleggjarann í Áshóli og þar er bara kassi sem hefur verið mjög vinsæll. Fólk nær sér sjálft í, afgreiðir sig sjálft og það gengur bara fínt,“ segir Anna Bára að lokum.