Fjármálaráðherra segir óumflýjanlegt að margir verði fyrir höggi í því efnahagsástandi sem nú ríkir. Seðlabankastjóri segir að veturinn verði erfiður, en fyrsta lota kórónuveirufaraldursins hafi ekki verið eins slæm efnahagslega og óttast var. Hann á von á því að verðbólga hjaðni á næstunni.
Ýmsar ráðstafanir til að brúa bilið
Kreppa telst nú skollin á á Íslandi. Á fjórða hundrað hafa misst vinnuna í hópuppsögnum í ágúst en þá eru ótaldar aðrar uppsagnir sem ekki teljast sem hópuppsagnir. „Ég held að það sé óumflýjanlegt að margir verði fyrir höggi þegar svona mikið gengur á,“ segir Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Hann á von á því að aðgerðir stjórnvalda komi til með að milda þetta högg. „Við erum búin að gera ráðstafanir til þess að fólk geti brúað bilið, komist með aðeins léttari hætti gegnum erfiðasta tímann, með því að framlengja tekjutengja tímabilið, vera með hlutabótaleiðina opna, fresta gjalddögum opinberra gjalda, búa til svigrúm í skattamálum og fleira og svo erum við að auka fjárfestingu ríkisins,“ segir Bjarni. „Þannig að með hallarekstri ríkissins og nýrri fjárfestingu þá erum við að reyna að auka umsvifin í hagkerfinu.“
Býst ekki við verðbólgu né vaxtahækkunum
Ásgeir Jónsson, Seðlabankastjóri, segir að svigrúm til vaxtalækkana hafi verið tiltölulega mikið vegna þeirrar peningastefnu sem rekin hefur verið undanfarið. Hann telur að stýrivextir Seðlabankans verði ekki hækkaðir á næstunni og býst ekki við verðbólgu, þó verðbólga hafi aðeins hækkað undanfarið vegna lægra gengis krónunnar. „En ég held að þessi verðbólga muni hjaðna og ég sé ekki fram á að það verði mikil verðbólga í þessum samdrætti sem núna er til staðar,“ segir Ásgeir. „Þannig við þessar aðstæðum þá er okkur að takast að beita peningastefnunni; með lágum vöxtum, prenta peninga til þess að reyna að örva hagkerfið.“
Hann segir að efnahagsleg áhrif fyrstu bylgju faraldursins hafi verið minni en óttast var. „Nú erum við í seinni hálfleik og við eigum ennþá útspil eftir,“ segir Ásgeir. „Þessi vetur verður erfiður að því leyti að það verða vandamál sem munu bíða okkar en ég trúi því að við getum brugðist við þeim.“