Samherjar og þjálfarar Söru Bjarkar Gunnarsdóttur í gegnum tíðina segja árangur hennar ekki koma sér neitt á óvart. Hún sé vel að þessu komin og hafi unnið hart fyrir þessu. Hana einkenni bæði vinnusemi og ákveðin trúðslæti þegar við á.

Þóra B. Helgadóttir var samherji Söru Bjarkar um langt skeið, bæði með landsliðinu og liði Rosengård í Svíþjóð. Hún segir erfitt að setja árangur Söru í samhengi.

„Ég held að það sé bara ekkert samhengi. Ég held að þetta sé bara það stærsta.“ segir Þóra, en er Sara þá sér á báti hvað þegar slíkt afrek er annars vegar?

„Ég held það. Ég meina, jú Eiður var ágætur og stóð sig vel. Ætli þetta sé ekki bara á pari við Eið Smára.“ segir Þóra.

Skrítið að fá ekki kvörtun frá nágrönnunum

Rakel Hönnudóttir var herbergisfélagi Söru í landsliðinu um árabil. Hún segist hafa átt erfitt með að hemja sig yfir leiknum í gærkvöldi.

„Ég hefði viljað hafa þetta á vídeói, ég hoppaði upp og barði í borðið og bara finnst mjög skrítið að ég hafi ekki fengið kvörtun frá nágrönnunum.“ segir Rakel um viðbrögðin við marki Söru Bjarkar í úrslitunum í gær.

„Hún er svona ofsalega ákveðin og þegar hún stígur inn á fótboltavöllinn þá er bara algjör fókus. En utan þess er hún algjör trúður sko. Hún er algjör grínisti og það er ótrúlega gaman að henni sko. En það er alveg bara tvennt ólíkt, að sjá hana inni á fótboltavelli og utan eiginlega.“ segir Rakel jafnframt um Söru Björk.

Smitar frá sér með brjáluðum metnaði og vinnusemi

Jón Þór Hauksson er landsliðsþjálfari kvenna. Hann er ekki hissa á árangri og frammistöðu Söru og segir hana einstakan karakter.

„[Sara] Vinnur hart að því sem hún ætlar sér og er mjög einbeitt á það og krefst þess að allir í kringum hana geri það sama. Sem er auðvitað bara frábært. Frábært fyrir lið að hafa hana í sínum hópi og hún virkilega kemur öllum upp á tærnar þegar á þarf að halda og það er ekkert hægt annað en að smitast með þessum brjálaða metnaði og vinnusemi.“ segir Jón Þór.

Ummæli fyrrum samherja Söru og landsliðsþjálfarans má sjá í spilaranum að ofan.