Sara Björk Gunnarsdóttir hefur hrifið unga sem aldna með frammistöðu sinni á fótboltavellinum síðustu misseri og ekki síst með sigri í Meistaradeild Evrópu í gærkvöld. Í Vesturbæ Reykjavíkur býr sérstaklega dyggur aðdáandi Söru Bjarkar og gladdist mjög yfir árangrinum.
Inga Ásta Hafstein er 11 ára Reykjavíkurmær sem sjálf spilar fótbolta með KR. Sara Björk er átrúnaðargoð hennar og það dylst engum.
„Mér finnst hún vera ákveðin og hún gefst aldrei upp. Og, bara, mér finnst hún mjög góð í fótbolta.“ segir Inga Ásta.
Þá á Inga Ásta svolítið af Söru Bjarkar-dóti.
„Ég á rúmföt og svo á ég svona treyju sem er árituð af Söru Björk, sem er römmuð inn, sem ég fékk í jólagjöf. Og svo er ég búin að hengja nokkrar myndir, eða festa nokkrar myndir af henni upp á vegg. Og ég á Söru Björk-bókina líka.“ segir Inga.
En nú er Inga Ásta í Wolfsburg-búningi en Sara Björk skipti frá þýska liðinu til Lyon í sumar og vann sigur með þeim síðarnefndu í gær. Aðspurð um hvernig hún hyggst útvega sér Lyon-búning var Inga snögg til svars:
„Ég læt pabba kaupa hann.“