Landsframleiðsla dróst saman um 9,3 prósent á öðrum ársfjórðungi miðað við sama tíma í fyrra. Sérfræðingur hjá Hagstofunni segir mikla óvissu ríkja um þróun efnahagsmála á næstu misserum.

Samdrátturinn er sá mesti sem mælst hefur á einum ársfjórðungi frá því að ársfjórðungsmælingar voru teknar upp af Hagstofunni. Samdráttur landsframleiðslu nú samanborið við í efnahagshruninu árið 2009 sýnir ólík mynstur. Nú dregst hún saman um níu komma þrjú prósent en þá dróst hún mest saman um átta komma sjö af hundraði í lok árs 2009. Ástæðan er sú að áhrif faraldursins hafa mun skjótari áhrif á efnahaginn en þegar fjármálakreppan brast á.

Áhrif fjármálakreppunnar voru mun langvinnari og vörðu lengi. Útflutningur dróst saman um tæp þrjátíu og níu prósent og innflutningur um tæp þrjátíu og fimm prósent á tímabilinu. Tekjusamdrátt í inn- og útflutningi má að stórum hluta rekja til minni ferðalaga fólks. Ekki er hægt að fullyrða hversu lengi áhrif kórónuveirukreppunnar vara. Gunnar Axel Axelsson er deildarstjóri þjóðhagsreikninga hjá Hagstofu Íslands.

„Þetta skellur á okkur alveg fyrirvaralaust. Aðdragandinn er mjög stuttur og orsökin allt önnur. Ég held að upplifun fólks líka af þeim aðstæðum  sem við erum í í dag sé gjörólík því sem var á þeim tíma. Ég held að það fyrst og fremst orsakist af því að það er enginn augljós sökudólgur. Órói í samfélaginu er ekki sá sami og var þá, þó að það sé erfitt að sjá hvernig ástandið verður eftir einhverja mánuði eða misseri ef ekki rætist úr, en þetta eru gjörólíkar aðstæður.“ segir Gunnar Axel.

Þrátt fyrir þennan mikla samdrátt segir Gunnar að Ísland standi vel að vígi í alþjóðlegum samanburði.

„Við þurfum að taka tillit til þess þegar við skoðum niðurstöðurnar að hér hefur verið samdráttur meðal annars í þjónustuútflutningi allt frá því í ársbyrjun 2019. Og það má því segja að Covid faraldurinn leggist að einhverju leyti ofan á þá þróun sem þegar hafði hafist.“ segir Gunnar.

Ekki er gott að finna hliðstæðu í efnahagssögu landsins.

„Það er þá helst í tengslum við hrun síldarstofnsins árið 1968 sem það gæti átt við eða mögulega árið 1920 þegar hér varð býsna djúp efnahagslægð sem þó varði tiltölulega stutt.“ segir Gunnar.

Hann segir ráðstöfunartekjur heimila hafa dregist lítið saman enn sem komið er.

„Það sem skiptir mestu máli það eru þessar sértæku aðgerðir, hlutaatvinnuleysisbætur, útgreiðsla á séreignarlífeyrissparnaði, lokunarstyrkir og ýmislegt fleira sem hefur verið gert til að vega upp á móti því tekjutapi sem ella hefði orðið hjá íslenskum heimilum. Hvort að það mun síðan halda þannig áfram inn í haustið og veturinn, það er erfitt að segja til um það,“ segir Gunnar.