Yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir það varhugaverða þróun hve margir taki óverðtryggð fasteignalán með breytilegum vöxtum. Greiðslubyrði þeirra gæti aukist um tugi prósenta.

Mun fleiri hafa keypt fasteignir í sumar en síðustu sumur, ef marka má fjölda íbúða sem teknar hafa verið af söluskrá. 20 prósent fleiri kaupsamningum var þinglýst í síðasta mánuði en í júlí í fyrra og hlutfall fyrstu kaupenda á fyrri helmingi þessa árs hefur aldrei verið hærra.

„Það kom inn á þennan markað meira af yngra fólki og margir hafa tekið skrefið í að stækka við sig sem hafa verið að bíða eftir því. Þau nýta tækifærið í ljósi aðstæðna sem er auðvitað lægri vextir sem eru að spila inn í,“ segir Kjartan Hallgeirsson, formaður Félags fasteignasala.

Ólafur Sindri Helgason, yfirhagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, segir lága vexti skipta miklu máli í þessu samhengi. „Stýrivextir eru sögulega lágir og vextir á húsnæðislánum hafa fylgt í kjölfarið. Við erum að sjá gríðarlega aukningu í hreinum nýjum útlánum bankanna í flokki óverðtryggðra lána. Við erum að sjá 50 prósenta aukningu milli mánaða. Í júlí námu hrein ný útlán 45 milljörðum króna á óverðtryggðum lánum en var í kringum 30 milljarða í mánuðinum á undan,“ segir Ólafur.

Stærstur hluti nýrra lána er óverðtryggður með breytilegum vöxtum enda hafa vextir á slíkum lánum ekki verið lægri síðan mælingar hófust. Þannig hafa til dæmis afborganir af 20 milljón króna láni sem tekið var í fyrra lækkað um 30 þúsund krónur á mánuði eftir lækkun vaxta.  

Ólafur segir þetta þó varhugaverða þróun.  Ef stýrivextir fara aftur í 3,5% má búast við að greiðslubyrði þessara lána hækki um rúmlega þriðjung og ef vextir fara aftur í það sem var fyrir fjórum árum þá gæti greiðslubyrðin hækkað um 60% á mánuði.

„Það er vissulega rétt að vara fólk við svona lántöku svo það geri sér grein fyrir þeirri áhættu sem það er að taka. Ég á ekki von á að stýrivextir fari hækkandi þegar ástandið í hagkerfinu er eins og það er en maður veit ekkert hvað gerist þegar til dæmis bóluefni kemur á markaðinn. Þá gæti allt tekið við sér á ný,“ segir Ólafur.

„Það er alltaf hægt að endurfjármagna en það er erfitt að vera á undan markaðnum að endurfjármagna. Það er voðalega erfitt að tímasetja þetta rétt. Þú getur reynt að endurfjármagna í fasta vexti ef þú sérð að vextir eru að fara að hækka en það er erfitt að segja hvaða lánskjör verða í boði akkúrat þá,“ segir hann.

Ásta S. Helgadóttir, Umboðsmaður skuldara, segir talsvert hringt í embættið vegna lánanna og segir fólk eiga að forðast að fara of geyst í slíka lántöku.

„Í rauninni er staðan sú núna að við erum í sögulegu lágmarki með vexti eins og allir vita. Síðan hefur fasteignaverð hækkað þannig að þeir sem eru að kaupa sína fyrstu eign geta lent í vandræðum þegar fasteignaverð fer að lækka aftur,“ segir Ásta.