Viðburðum í Hofi á Akureyri hefur fækkað um 70% vegna kórónuveirunnar. Mikill uppgangur hjá SinfoniaNord við tökur á kvikmyndatónlist skipta því sköpum fyrir Menningarfélag Akureyrar. Framkvæmdastjóri telur innanlandsmarkaðinn verða fljótan að taka við sér á ný þegar hertar aðgerðir fara að skila árangri.

Í Menningarhúsið Hof á Akureyri sækir fólk menningarviðburði, ráðstefnur og fundi. Bókanir hrundu á vormánuðum eftir að faraldurinn braust út en svo færðist aftur líf í húsið í sumar og bókunarstaða næstu mánuði er góð. Ný smit og hertar aðgerðir setja hins vegar strik í reikninginn.

Sníða stakk eftir vexti

„Fólk er að halda í vonina um að geta verið með viðburðina og þá í rauninni að fjölga tónleikum, í staðinn fyrir að vera með eina tónleika þá eru tvennir og það eru allskonar svona útfærslur sem við erum að vinna að með viðburðarhöldurum,“ segir Þuríður Helga Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Menningarfélags Akureyrar. Lítið mál sé að halda fundi og minni tónleika en tónleikar með stærri hljómsveitum séu vandmeðfarnari. 

Á ekki von á því að segja upp fólki

Þuríður Helga segir í kringum 60-70% fækkun á viðburðum og samdrátt í tekjum. Tekjur næstu fjóra mánuði ættu alla jafna að vera um 24 milljónir, bestu spár nú gera hins vegar ráð fyrir 10 milljónum. Þrátt fyrir það var hlutabótaleiðin aðeins nýtt í tvo mánuði og Þuríður á ekki von á að þurfa að segja upp fastráðnu fólki.

Þar spilar meðal annars inn í mikill uppgangur hjá SinfoniaNord í upptökum á kvikmyndatónlist. „Það eru mjög margir sem hafa fengið vinnu hjá okkur í sumar, við erum með veltu yfir 50 milljónir bara í sumar í upptökum fyrir kvikmyndatónlist,“ segir hún. Menningarfélag Akureyrar samanstendur af Leikfélagi Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands og Menningarfélaginu Hofi.

Þó óvissan sé mikil er Þuríður Helga bjartsýn á veturinn og telur að innanlandsmarkaðurinn taki við sér aftur þegar hertar reglur verði farnar að skila árangri og smitum fækkar á ný.