„Við þurfum að vera örugg í orðsins fyllstu merkingu,“ segir Snæfríður Sól Gunnarsdóttir, einn aðstandenda sviðslistahátíðarinnar Safefest.
Í ár er hátíðin haldin í Midpunkt í Kópavogi og víðar um Hamraborgina. Safefest ber nafn með rentu á tímum varkárni, fjarlægða og öryggisráðstafana. „Ótrúlegt en satt er nafnið ekki út af ástandinu sem nú er í gangi heldur stofnuðum við hana í nóvember í fyrra undir þeim formerkjum að þetta væru tilraunir á sviðslistavettvangi. Í rauninni bætir þetta ástand sem er í gangi núna öðru layer-i ofan á,“ segir Snæfríður.
Að sögn Helga Gríms Hermannssonar, annars skipuleggjenda, var áskorunin skemmtileg. „Þetta eru skapandi hömlur sem við þurftum að hoppa yfir sem er bara mjög gaman að fá að prófa líka.“ „en stundum pirrandi,“ bætir Snæfríður við og Helgi tekur undir.
Fylltu bílinn af fjöri
Höfundar verka á hátíðinni í ár eru auk Snæfríðar og Helga Birnir Jón Sigurðsson, Kamilla Einarsdóttir, Aron Martin Ásgerðarson, Salvör Gullbrá Þórarinsdóttir, Adolf Smári Unnarsson, Sólbjört Vera Ómarsdóttir og Tómas Helgi Baldursson.
Á opnunarhátíðinni voru atriði vítt og breytt um Hamraborg. „Kór og ræður og tónlistaratriði og annað þar sem við getum haldið tveggja metra bili. Áhorfendur fengu grímur og hanska og spritt og svo verður smá svona ferðalag,“ segir Snæfríður.
Meðal atriða eru vídjóverk, þar á meðal með eftir Helga Grím. „Ég gerði vídjó með Jóni Jónssyni þar sem Jökull vinur minn og samstarfsmaður spilar sína útgáfu af Fylltu bílinn af fjöri fyrir Jón Jónsson í klukkutíma. Svo verður Salka Gullbrá með verk þar sem hún leyfði krökkum að fá rýmið og valda eins miklum usla og þau gátu.“
Atriði hátíðarinnar eru af ýmsum toga. „Birnir Jón Sigurðsson er að hoppa. Hann datt í fyrra og hoppar núna á vegg. Svo má ekki gleyma gjörningahandbók barnanna. Það verður hægt að fjárfesta í henni,“ segir Snæfríður.
Safefest stendur yfir til 30. ágúst. Nánari upplýsingar má finna hér.