Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segir ekki skynsamlegt að reikna með því að bóluefni verði komið í almenna dreifingu fyrir áramót. Hins vegar bindur hann vonir við að það verði komið í dreifingu á næsta ári.  

Í viðtali í Síðdegisútvarpi Rásar 2 í dag segist Kári búast við því að bóluefni verði dreift á „tiltölulega félagslegan hátt“ og að fyrirtæki selji bóluefni ekki í gróðaskyni.  

Hann segir að venjulega stígi bandarískar og evrópskar lyfjaeftirlitsstofnanir á bremsuna þegar kemur að þróun bóluefna en nú leggi þær sig fram um að ýta á eftir þróuninni. Sennilega verði ekki búið að prófa bóluefnið jafn vel og vaninn er. „En menn verða að vega og meta annars vegar hættuna af því að vinna með bóluefni sem er ekki búið að prófa eins vel og venjulega og hins vegar þennan heimsfaraldur sem við vitum hvernig hefur slæm áhrif á einstaklinga og samfélög,“ segir hann. Þá segir Kári að bólusetja þurfi mikinn meirihluta þjóða, allt að 60 prósent, til þess að fá öruggt hjarðónæmi.  

Sóttvarnaráðstafanir hlífa engum 

Hann sjái ekki ástæðu til að ráðast í sérstakar ráðstafanir vegna smitanna á Hótel Rangá. „En það er svolítið gaman að vita af því að þessar ráðstafanir sóttvarnayfirvalda hlífa engum. Hvort sem þú ert í ríkisstjórn eða ekki í ríkisstjórn. Ef þú ert í hættu þá ferðu í þína sóttkví,“ segir Kári. 

Í kvöld megi búast við að niðurstöður úr raðgreiningum á nýju smitunum liggi fyrir og þá komi í ljós hvort veiran sé sú sama og hefur mallað í samfélaginu síðustu vikur.