Íslensk fótboltalið sem taka þátt í Evrópukeppnum í sumar mega fara í svokallaða vinnusóttkví eftir leiki sína erlendis. Það þýðir að þau mega æfa á meðan sóttkvínni stendur en ekki spila við önnur lið. Þetta staðfesti Víðir Reynisson hjá Almannavörnum við RÚV í dag.

Karlalið KR lék við skoska liðið Celtic í Skotlandi á þriðjudagskvöld og tóku við á miðnætti nýjar reglur um tvöfalda skimun allra þeirra sem koma til Íslands. Síðan þá hefur þeirri hugmynd verið velt upp að leikmenn liða sem keppa erlendis geti farið í svokallaða vinnusóttkví. Með henni gætu leikmenn æft eftir komu sína til landsins. Víðir staðfesti í dag að svo sé.

„Það liggur ljóst fyrir að sá möguleiki er fyrir hendi. Við funduðum um þetta í morgun og fórum yfir þetta með sérfræðingum hjá sóttvarnarlækni. Niðurstaðan er sú að kröfur og reglur UEFA og KSÍ og þær hugmyndir sem hafa um þetta uppfylla skilyrði um vinnusóttkví. Þannig að liðin sem eru að koma hingað til lands úr ferðum erlendis geta farið í slíka sóttkví.“ segir Víðir.

Mega æfa en ekki keppa

Víðir segir þá skýrt að lið þurfi að sækja um vinnusóttkví fyrir ferð sína erlendis. Þá megi þau æfa eftir heimkomuna en ekki spila við önnur lið.

„Það þarf að sækja um þetta, það þarf að uppfylla ákveðin skilyrði og það eru umsóknir í gangi frá liðum sem eiga eftir að fara í Evrópukeppnina og þessi vinnusóttkví nær eingöngu til æfinga. Hún nær ekki til keppni þannig að liðin geta ekki keppt við önnur lið á meðan þessu 5-6 daga ferli stendur yfir.“ segir Víðir.

Ætla má út frá orðum Víðis að KR-ingar séu í almennri heimasóttkví þar sem gefið er í skyn að sækja þurfi um sóttkvína áður en haldið er út að keppa.

Erlend lið geti komið hingað til lands og keppt

Víðir var þá spurður hvort slík vinnusóttkví myndi gilda um erlend lið sem koma hingað til lands að keppa, til að mynda landslið Englands sem mætir Íslandi 5. september á Laugardalsvelli. Það er ekki svo og geta lið komið degi fyrir leik til landsins.

„Það er annað fyrirkomulag á því. Þau eru að koma inn í þessa svokölluðu búbblu sem sett er upp í sambandi við þessa UEFA-leiki. Þannig að liðin byrja í henni erlendis, fara í sýnatöku erlendis áður en þeir koma hingað og eru í hálfgerðri sóttkví áður en þeir koma til landsins. Þá fara þeir í sýnatöku hjá okkur á landamærunum og mega æfa og spila leikinn innan þess fimm daga ramma ef að þörf krefur á,“ segir Víðir og bætir við:

„Eins og í tilviki enska landsliðsins þá munu þeir kannski ekki koma nema degi fyrir leik, mesta lagi tveimur dögum fyrir leik, en vegna þessa kröfu UEFA og umhverfis sem er skapað þar þá samræmist það þeim kröfum sem hafa verið gerðar hér og þar af leiðandi geta þeir spilað leikinn.“

Ummæli Víðis má sjá í spilaranum að ofan.