Hjónin og listamannatvíeykið Gilbert & George eru meðal þekktustu listamanna Bretlands og hafa haft mótandi áhrif á myndlist samtímans síðustu fimm áratugi. Þeir nálgast einkalíf sitt sem listaverk og ruddu braut gjörningalistar í verkum sem hafa ögrað borgaralegum gildum en eru um leið pólitískir íhaldsmenn.
Sýningin The Great Exhibition í Listasafni Reykjavíkur er hluti af Listahátíð í Reykjavík og Hinsegin dögum. Gilbert og George ætluðu að vera viðstaddir opnunina en Covid 19 setti strik í reikninginn. Undanfarna mánuði hefur tvíeykið því haldið kyrru fyrir á heimili sínu, sem er jafnframt vinnustofa þeirra. Það hefur ekki gengið vandkvæðalaust fyrir sig; þeir eru ekki hrifnir af eldamennsku og ekki einu sinni með eldavél á heimilinu og hafa lifað á skinkusamlokum og skyndkaffi.
Leið Gilbert og George lá saman í Saint Martin's listaskólanum í London á 7. áratugnum. Þeir segja að það hafi verið þeirra helsta gæfa að ólíkt flestum skólasystkinum sínum komu þeir ekki af efnafólki úr millistétt.
„Við skárum okkur algjörlega úr í Saint Martin's þar sem við komum ekki úr miðstétt. Allir nemendurnir þar fengjust við myndlist og líklega skipti afkoman ekki máli því það var ætíð eitthvað annað að gera, frændi átti hótel að fjölskyldufyrirtæki sem hægt var að hverfa að. Við höfðum ekkert slíkt. Annað hvort yrðum við listamenn eða misheppnaðir. Og það veitti okkur viss forréttindi. Ekkert öryggisnet frá fjölskyldunni, það var mjög fínt.“
Það var einmitt úr peningaleysinu sem hugmyndin að því að gera einkalíf sitt að listaverki spratt, þar sem þeir höfðu hreinlega ekki efni á vinnustofu.
„Að gera okkur að lifandi listaverkum var helsta uppfinning okkar. Allt sem við gerðum eftir það var grundvallað á því. Við á ferð um lífsins veg og það varð stóri skúlptúrinn okkar; með flækjur okkar, snúið kynferði, hvaða augum umheimurinn leit á það, hvernig það hefur breyst, siðferði dagsins í dag. Það var hluti af hinum lifandi skúlptúr.“
Sigrún Davíðsdóttir leit við á heimili Gilberts og George og ræddi við listamennina um líf þeirra og list. Horfa má á innslagið hér að ofan.