Atvinnulausum verður heimilt að fara í nám án þess að missa atvinnuleysisbætur samkvæmt breytingum á lögum sem nú eru í vinnslu. 20 prósent útlendinga hér á landi eru nú án atvinnu.
Starfshópur sem félagsmálaráðherra setti saman í vor hefur nú skilað tillögum um hvernig breyta þurfi lögum til þess að heimila fólki að stunda nám meðan það er í atvinnuleit.
„Þetta lýtur að því að þeir sem eru langtímaatvinnulausir geti farið í nám sem hluta af sínum úrræðum, sambærilegt var gert hér í efnahagshruninu. Og ég bind miklar vonir við þetta og við erum svona að leggja lokahönd á útfærsluna á þessu og getum vonandi kynnt það á næstu dögum,“ sagði Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, í sjónvarpsfréttum í kvöld.
Atvinnuleysi var 8,8 prósent í lok júlí
Í skýrslu Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi í júlí kemur fram að í lok mánaðarins var það 8,8 prósent. Það hefur lækkað lítillega frá því í júní ef horft er samanlagt til almenns atvinnuleysis og þeirra sem eru á hlutabótum. Þeim sem eru á hlutabótum hefur fækkað en þeim sem fá almennar atvinnuleysisbætur hefur fjölgað. Samanlagt eru þetta rúmlega tuttugu og eitt þúsund manns. Spáð er lítilli aukningu á atvinnuleysi í ágúst og það verði um 9%.
Þegar horft er á skiptingu atvinnuleysis eftir landshlutum má sjá að eins og áður er það mest á Suðurnesjum, samanlagt 16,5%.
Atvinnuleysi meira meðal kvenna
Tæplega ein af hverjum fimm konum á vinnualdri á Suðurnesjum er atvinnulaus en þar er munur á atvinnuleysi karla og kvenna jafnframt mestur. Tæplega 15% karla eru þar án vinnu en nítján prósent kvenna.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir þá skýringu helsta að konur sinni stórum hluta starfa í ferðaþjónustu, þar sem atvinnuleysið er mest. „Þetta eru þrif á hótelum, þetta er afgreiðsla á veitingastöðum og svo framvegis, og svo eru þetta náttúrulega líka flugliðarnir og það má segja að þetta hafi byrjað kannski strax í fyrra með falli WOW,“ segir hún.
Tæplega einn af hverjum fimm erlendum ríkisborgunum atvinnulaus
Í tölum Vinnumálastofnunar kemur einnig fram að tæplega einn af hverjum fimm erlendum ríkisborgurum hér á landi sé atvinnulaus, alls um sjö þúsund manns. Helmingur eru Pólverjar en þar á eftir Litháar, fjórðungur og því næst Lettar.
„Það er eins og við höfum sagt áður, þótt það sé leiðinlegt að segja frá því en útlendingarnir voru fyrstir út af vinnumarkaðinum og þeim hefur kannski ekki gengið nógu vel að ná í vinnu aftur,“ segir Unnur.