Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar-, nýsköpunarráðherra, segir að þær vinkonurnar hefðu ekki átt að taka myndina sem hefur farið eins og eldur í sinu um internetið síðustu daga. „Hún var óþarfi og við hefðum ekki átt að taka hana,“ segir Þórdís í viðtali í sjónvarpsfréttum.  

Á myndinni, sem var tekin á laugardagskvöld þegar Þórdís Kolbrún skemmti sér með vinkonum sínum, halda þær utan um hver aðra og spurningar hafa vaknað um það hvort sóttvarnarreglur hafi verið virtar að vettugi.  Þórdís segist hafa hitt vinkonur sínar sem hún hittir ekki oft, enda búi þær í ólíkum bæjarfélögum.  

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í dag að breyta þyrfti upplýsingum á covid.is til að tryggja samræmi milli upplýsingavefsins og nýjustu auglýsingar heilbrigðisráðherra um takmörkun á samkomum. Þórdís segir mikilvægt að reglurnar séu skýrar en telur sig ekki hafa brotið reglur á laugardagskvöldið.  

Þórdís Kolbrún var í viðtali í Sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld. 

Var það þinn skilningur að hittingur sem þessi hafi verið leyfilegur? 

Við vorum auðvitað mjög meðvitaðar um reglurnar og þegar við gengum inn á þennan veitingastað þá var ég meðvituð um það að það væri tryggð tveggja metra regla í kringum okkar borð. En taldi okkur heimilt að sitja saman við þetta borð. Og það er í samræmi við þessa auglýsingu og ég held það skipti bara máli að þetta sé skýrt. Umræðan fór auðvitað á flug í gær og olli misskilningi því það skiptir máli að reglurnar séu skýrar og markmiðið með því sömuleiðis. 

Þú talaðir um það í grein í Morgunblaðinu í síðustu viku að það væri „okkar eigin hegðun“ sem væri lykilatriðið í baráttu okkar við veiruna. Skýtur þetta ekki skökku við? 

Ég skil vel hvernig þetta kom við fólk og þessi myndataka af okkur saman í einum hópi, þrátt fyrir að strangt til tekið skiljist mér að það sé ekki brot á reglum, þá var hún óþarfi og við hefðum ekki átt að taka hana, og mér þykir það leitt. Ég átta mig á því að ég er í framlínu og þetta er risastórt verkefni og okkur líður öllum alls konar. Ég bara fullvissa fólk um það að ég er að gera  mitt besta og ég mun áfram segja að einstaklingsbundnar sóttvarnir séu mikilvægasta verk fyrir okkur í þessari veiru. Ég mun áfram segja það. Ég er á þeirri skoðun og það er það sem skiptir öllu máli áfram og ég sjálf fylgi því eftir eftir bestu getu.  

Eru þeir sem eru að virða tveggja metra regluna, eru þeir að misskilja tilmæli stjórnvalda? 

Almenna reglan er tveggja metra reglan og við eigum að sýna fólki kurteisi og viðhalda tveggja metra reglunni. Og það er skylda rekstraraðila að fólk geti komið inn á veitingastað og viðhaldið þessari tveggja metra reglu. Að öðru leyti finnst mér þríeykið hafa svarað þessu ágætlega í dag. Og ég tek þetta til mín og vanda mig. En ég taldi mig að sjálfsögðu vera að fylgja reglum. Og eins og ég segi, við vorum meðvitaðar um að við værum að hittast og þyrftum að fara varlega og að við deildum ekki saman húsnæði.  

En þeir sem hafa frestað jarðarförum, fermingum, veislum og þess háttar. Hvað með þá? 

Það er auðvitað, eins og áður hefur verið sagt, þetta eru einstaklingsbundnar ákvarðanir og ég myndi sjálf ekki halda hundrað manna fermingarveislu. En það er líka stórt verkefni að reyna að finna út úr því hvernig við gerum þetta saman. Ég átta mig á mínu hlutverki í því. En veitingastaðir eru opnir og við höfum fylgst með því hvernig lögreglan er að fara yfir það hvernig rekstur er innan þeirra. Og það að hópar sitji saman, litlir, inni á veitingastað hefur, að mér skilst, verið samkvæmt reglunum. Og við fórum varlega og það gerði starfsfólkið líka.  

Þú talaðir um að þetta hefði verið langþráð frí frá veirunni. Erum við ekki öll orðin langeyg eftir að losna við þetta? 

Auðvitað erum við það öll. En ég nefndi sérstaklega að ég hefði átt langþráðan dag með vinkonum mínum. Vegna þess að þetta eru æskuvinkonur mínar sem ég hitti ekki oft. Við búum í mismunandi bæjarfélögum og lifum okkar lífi. Við erum búin að fara gegnum sumarfrí og vonandi hafa flestir átt ágæta daga en ég veit líka að við erum öll í mismunandi stöðu. Og það er ekki þannig að ég hafi svo ofboðslega þurft á þessu fríi að halda heldur meira bara að ég saknaði vinkvenna minna á Skaganum.