Loftslagsbókmenntir, eða „cli-fi“ eins og alþjóðlega heitið yfir þennan undirflokk bókmenntanna mun vera, er nýtt hugtak í bókmenntafræðum sem á síðustu árum hefur fest sig í sessi. „Í loftslagsskáldsögum [er] leitast við að sýna heiminn sem eina heild, sýna hvernig áhrif loftslagsbreytinga á einum stað geta haft áhrif á öðrum og gerbreytt lífi þeirra sem þar lifa,“ segir Ragnheiður Birgisdóttir sem rannsakað hefur loftslagsbókmenntir.
Hugtakið „climate fiction“, skammstafað „cli-fi“, mun fyrst hafa verið notað af blaðamanninum Dan Bloom árið 2007 og vildi hann með því vísa til fjölbreytts flokks ljóða og sagna jafnt sem kvikmynda þar sem loftslagsbreytingar af mannavöldum eru ekki aðeins hluti af bakgrunni viðkomandi verks heldur beinlínis umfjöllunarefnið á breiðum grundvelli.
Hér á landi hefur Guðni Elísson prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands helst fjallað um tengsl skáldskapar og loftslagsbreytinga sem og um áhrif loftslagsbreytinga í hugmyndafræðilegri umræðu. Guðni var til að mynda ritstjóri 1. tölublaðs Ritsins, tímarits Hugvísindastofnunar, árið 2016, en efni þess var einmitt „Loftslagsbreytingar, frásagnir af þeim og aðferðum okkar við að segja sögur af viðbrögðum og mögulegum lausnum sem og um þá hugmyndafræði sem liggur til grundvallar.“ Guðni Elísson var einnig leiðbeinandi Ragnheiðar Birgisdóttur sem í fyrra skrifaði BA-ritgerð um loftslagsbreytingabókmenntir sem hún kallar „Frá afneitun til þekkingar. Um loftslagsbreytingabókmenntir, hlutverk þeirra og um Flight Behavior eftir Barböru Kingsolver“ en Barbara Kingsolver er bandarískur rithöfundur og menntaður líffræðingur sem hefur skrifað allmargar skáldsögur sem falla undir regnhlífarhugtakið loftslagsbreytingabókmenntir.
Í þættinum Orð um bækur var nýlega rætt við Ragnheiði um þessa nýju bókmenntagrein sem hún segir tvíþætta, „annars vegar þau verk sem teygja sig nær fantasíu- og vísindaskáldskap og svo þau sem teygja sig nær fagurfræði raunsæisbókmennta.“ Hvað síðari flokkinn varðar, segir Ragnheiður, þá eru nokkur atriði yfirleitt til staðar. „Þar eru gjarnan settar fram getgátur um framtíðina, hvernig hún gæti átt eftir að líta út, en með þeim hætti að lesandinn geti samsamað sig við. Þá skipta persónulegar aðstæður sögupersóna máli, sem og félags- og menningarlegar aðstæður í söguheiminum. Síðast en ekki síst virðist í loftslagsskáldsögum leitast við að sýna heiminn sem eina heild, sýna hvernig áhrif loftslagsbreytinga á einum stað geta haft áhrif á öðrum og gerbreytt lífi þeirra sem þar lifa. Tíminn skiptir miklu máli, það er hvernig eitthvað sem gerðist fyrir hundrað árum hefur áhrif á líf fólks í dag og í framtíðinni.“
Í verkum sem flokkast sem loftslagsbókmenntir er gjarnan einhver persóna vísindamaður eða áhugamanneskja um vísindalegt samhengi lifnaðarhátta okkar og geta loftslagsskáldsögur því oft verið mjög upplýsandi og hjálpað lesandanum að sjá hlutina í samhengi og í samhengi við sitt eigið líf. Loftslagsbókmenntir eru þó almennt ekki prédikandi heldur er þessum hugleiðingum fléttað inn í atburðarás ýmissa bókmenntagreina, ástar- og glæpasagna, kynslóða- og ættarkrónika og svo framvegis.
Skáldskapur, hvort heldur sögur eða ljóð, tengist oftar en ekki grundvallarafstöðu þess sem skrifar og getur könnunarleiðangurinn sem skriftirnar eru leitt fram margar og oft þversagnakenndar spurningar.
Þótt loftslagsbreytingabókmenntir sé tiltölulega nýtt hugtak voru rithöfundar þegar á síðari hluta 20. aldar farnir að fjalla um tengsl loftslagsbreytinga og lífsskilyrða manneskjunnar á plánetunni jörð í verkum sínum. Má þar nefna breska rithöfundinn J.G. Ballard sem þegar á 7. áratugnum skrifaði fjórleik um endalok heimsins út frá loftslagsbreytingum þar sem hvert frumefnanna; loft, vatn, eldur, jörð voru í brennidepli hvert í sinni bók. Frá aldamótum hafa bækur, hvort heldur heimsslitasögur eða raunsæisbókmenntir þar sem loftslagsbreytingar mynda umgjörð, sótt mjög í sig veðrið. Má þar nefna verk eins Oryx and Crake (2003) og fleiri bækur eftir Margaret Atwood sem og skáldsöguna Solar (2010) eftir Ian McEwan.
Frumsamdar bækur á íslensku sem falla í þennan flokk hafa hingað til aðallega verið skrifaðar fyrir börn og unglinga og má þar nefna höfunda eins og Hildi Knútsdóttur, Arndísi Þórarinsdóttur, Sigrúnu Eldjárn sem og Andra Snæ Magnason sem einnig hefur skrifað slíkar bækur um loftslagsmál fyrir fullorðna, samanber Tíminn og vatnið frá fyrra ári.
Íslensk ljóðskáld virðast ekki hafa helgað heilu bækurnar loftslagsbreytingum þótt ljóðabókin Vistarverur eftir Hauk Ingvarsson frá árinu 2019 og Jökulhvörf eftir Kára Tulinius frá árinu 2018 mætti sannarlega setja undir þann hatt. Í áðurnefndu 1. tölublaði Ritsins frá árinu 2016 skrifaði Guðni Elísson grein sem hann kallaði ljóðið á tímum loftslagsbreytinga, þar sem hann meðal annars benti á að að einn af eiginleikum ljóðsins væri „að það eigi jafn auðvelt með að lýsa aldri vetrarbrautanna og leifturstundu eldingar sem lýstur niður í tré.“
Í tengslum við umfjöllun sína fékk Guðni átta íslensk ljóðskáld til að yrkja ljóð um þetta efni, loftslagsbreytingar, en á síðustu árum hafa í ýmsum löndum, ekki síst í Bandaríkjunum, komið út söfn ljóða um þetta efni sem og einstaka ljóðabækur.
Fyrir tveimur mánuðum skrifaði bandaríska ljóðskáldið og greinahöfundurinn Elisa Gabbert um nokkrar slíkar ljóðabækur í tímaritið New York Review of Books, grein sem hún kallaði „Poems from the Storm“ – ljóð úr storminum. Þar fjallaði hún einkum um tvær nýjar bækur með ljóðum sem beinlínis fjalla um loftslagsbreytingar. Þetta eru annars vegar ljóðabókin The Shore – Ströndin eftir ljóðskáldið og háskólakennarann Chris Nealon og hins vegar ljóðabókin In the Lateness of the World – Mitt í seinkun eða seinagangi heimsins eftir Carolyn Forché.
Hér fyrir ofan er sagt svolítið frá grein Elisu Gabbert í New York Review of Books og grein Guðna Elíssonar í Ritinu.