Ferðamannasumarið í ár er danskt og þýskt, fleiri Danir heimsóttu Ísland nú í júlí en á sama tíma í fyrra. Af 86 þúsund sýnum sem hafa verið tekin úr ferðamönnum bið komuna hafa 39 greinst með COVID-veiruna.
Ólíkar skoðanir eru uppi um hvort og þá með hvaða hætti haga eigi komu erlendra ferðamanna til landsins í COVID-faraldrinum.
Landamærin hafa í raun og veru verið opin frá því faraldurinn hófst. Það eina sem hefur breyst eru þær reglur sem gilda við komuna til landsins. Hverjir þurfa að fara í sóttkví, hversu lengi, hverja þarf að skima og svo framvegis. Stærstu breytingarnar í þessum þessum efnum voru gerðar 15. júní, en þá var hafist handa við að skima ferðamenn við komuna til landsins.
Yfir 86 þúsund sýni á landamærunum
Frá því þetta fyrirkomulag var tekið upp hafa verið tekin yfir 86 þúsund sýni á landamærunum. 39 farþegar hafa greinst með virk smit. 104 reyndust með mótefni fyrir veirunni og beðið er eftir niðurstöðu úr þremur sýnum. 0,04 prósent af þeim farþegum sem gengust undir sýnatöku á landamærunum reyndust þess vegna smitaðir af COVID-19 og um 25 þúsund farþegar frá öruggum löndum fóru ekki í sýnatöku.
Danskt og þýskt ferðasumar
Tölur Ferðamálastofu sýna að Danir og Þjóðverjar eru fjölmennastir þetta sumarið. Það þarf kannski ekki að koma á óvart í ljósi þess að um miðjan júlí var báðum þessum löndum bætt á lista yfir ríki þar sem farþegar þurfa ekki að undirgangast skimun. Það sem kemur hins vegar á óvart er að það komu fleiri Danir hingað núna í júlí heldur en á sama tíma í fyrra. „Þetta er greinilega danska og þýska sumarið, segir Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri.
Svo eru það þeir sem koma ekki en samdráttur frá mikilvægum markaðssvæðum eins og Norður-Ameríku og Asíu er í flestum tilfellum upp á 99 prósent. Sem dæmi má nefna að 65 þúsund Bandaríkjamenn komu til Íslands í júlí í fyrra en einungis 360 í ár.
Kemur landsbyggðinni vel
Evrópubúar og íslenskir ferðamenn hafa haldið uppi ferðaþjónustunni í ár. „Evrópubúar fara líka mikið meira út á land og það sjáum við á ferðaþjónustunni á landsbyggðinni,“ segir Skarphéðinn og bendir á að umsvifin úti á landsbyggðinni í júlí hafi verið álíka mikil og í fyrra.
En það eru ekki bara útlendingar að koma til Íslands, því Íslendingar eru einnig á faraldsfæti. Þó ekki nærri jafn mikið og í fyrra því brottfarir Íslendinga héðan úr Leifsstöð hafa dregist saman um nærri 80 prósent. Í fyrra fóru rúmlega 60 þúsund Íslendingar til útlanda en í ár voru þeir einungis 13.300.