Eigandi Ölstofunnar segist hafa verið óviðbúinn aðsókn á barina í gærkvöldi en hyggst gera úrbætur fyrir næstu helgi. Lögreglan heimsótti staðinn tvisvar í gær. „Og var afskaplega ánægð í fyrra skiptið; sagði að við hefðum undirbúið okkur vel, en svo var hún aðeins þyngri í seinna en samt alveg í góðu. Það voru of margir í reyknum en fínt hérna inni.“
Tæplega 90 inn á staðnum
Ölstofan hefur fækkað borðum og stólum til að gæta að tveggja metra reglunni. Hvað heldurðu að það hafi verið margir hérna inni rétt fyrir klukkan ellefu í gær? „Við vorum með mæli, rétt um 90 tæplega,“ segir Kormákur Geirharðsson, einn eiganda Ölstofunnar.
Með tvo metra á milli? „Já, megnið af þeim,“ segir hann. Kormákur segir að margir hafi verið í bænum þrátt fyrir að gleðigöngu Hinsegin daga hafi verið aflýst. „Þarna ákveður fullt af fólki að þetta sé kvöldið þeirra þó að það sé búið að aflýsa öllu. Það kemur í bæinn, þá verður ógeðslega gaman, mikið af fólki. Við vorum bara óundirbúnir, en gerðum ansi margt samt. Tilfellið með reykinn, ég hélt að það reyktu ekki svona margir á Íslandi,“ segir Kormákur.
En hefðuð þið ekki verið hægt að ráða við þetta, vera betur undirbúin og telja inn og slíkt? „Jújú, við gerðum það hér. Við vorum góðir hér inni, en það var aðallega reykingasvæðið sem var erfitt að telja inn og út úr.“
Telja inn á reykingasvæðið
Hvernig ætlið þið að undirbúa ykkur fyrir næstu helgi þá? „Við erum bara að búa til spjöld með meiri upplýsingum og viðvaranir; gömul og góð vísa er ekki of oft kveðin. Kenna staffinu sem er hérna hvað það á að gera. Hvenær á að hætta að hleypa fólki í reykinn til dæmis, þannig það verði takmörk á því,“ segir hann.
Eitthvað er um að fólk safnist saman fyrir utan staðina, þar ber fólk ábyrgð á sjálfu sér. „Ef það er 100 manna staður sem bæri 40-50 ef tveggja metra reglan væri virkt, þá væru að sjálfsögðu færri sem kæmu út. Þetta helst allt í hendur,“ segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu sem kynnti breytt verklag lögreglunnar á upplýsingafundi almannavarna í dag. Lögreglan ætlar að beita sektum ef staðir fylgja ekki sóttvarnarreglum frá og með deginum í dag, og jafnvel loka þeim tímabundið. Lögreglan fór í eftirlitsferð í gærkvöld, á fimmtán stöðum voru reglur brotnar.