Mjög fáir þeirra sem greindust í gær voru í sóttkví, að sögn Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns. Hann segir til skoðunar að leggja einhverja þeirra smituðu inn á spítala. Aðspurður hvort upp sé komin ný hópsýking segir Víðir að réttast sé að segja að upp sé kominn faraldur.  

17 ný smit greindust innanlands í gær og þrjú virk smit greindust úr landamæraskimun. Víðir segir fjöldann sem greindist innanlands í gær mikið áhyggjuefni og að fjöldi fólks sé nú í sóttkví vegna fólks sem greindist smitað eftir að hafa verið í Eyjum að skemmta sér um helgina. RÚV greindi frá því fyrr í dag að 48 Eyjamenn væru nú í sóttkví vegna þessa.  

Þá segir Víðir mikilvægt að tryggja að farið sé eftir sóttvarnarreglum. Of mörg dæmi séu um að fólk virði ekki tveggja metra regluna, þótt flestir virðist fara að reglum um samkomubann.