Íslandsmótið í golfi hefst á Hlíðavelli í Mosfellsbæ á fimmtudag. Mótið fær að fara fram þrátt fyrir að annað íþróttastarf liggi svo gott sem niðri þessa dagana vegna COVID-19. Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri Golfklúbbs Mosfellsbæjar, segir að séð verði til þess að allir fari eftir fyrirmælum sóttvarnalæknis og heilbrigðisyfirvalda.

„Það er ýmislegt sem við þurfum að gera. Við erum fyrst og fremst fegin og glöð að fá að halda mótið. Þegar þetta kom í ljós höfðum við strax samband við sóttvarnalækni og heilbrigðisyfirvöld og þau gáfu okkur grænt ljós. Við gerum þetta þá þannig að það fer sjálfboðaliði með hverju holli og þetta er eini aðilinn sem að snertir flaggstöngina. Hann eða hún rakar sandgryfjuna á eftir kylfingum og réttir kylfingum boltann upp úr holunni. Hver og einn sjálfboðaliði fer af stað vopnaður hrífu, 18 pörum af einnota hönskum og sótthreinsiklút til þess að þrífa stöng, og brúsa af sótthreinsivökva. Þannig að á enginn, og það verður engin, snerting á sameiginlega fleti hjá leikmönnum. Það er auðvitað nóg pláss svo það er hægt að halda tveggja metra fjarlægð. Þannig að við vonum bara að þetta gangi allt vel og allir framfylgja því sem á að gera og þannig verður þetta geggjað,“ segir Ágúst Jensson, framkvæmdastjóri GM.

Óhætt er að segja að Golfklúbbur Mosfellsbæjar hafi þurft að hafa hraðar hendur en nýjar reglur um sóttvarnir voru teknar upp á hádegi á föstudag, sex dögum fyrir Íslandsmótið.

„Það var bara eitt í stöðunni. Við vorum búin að manna allt með okkar frábæra fólki í Golfklúbbi Mosfellsbæjar hvað varðar sjálfboðaliða. Við áttum ekki von á að þurfa svona marga sjálfboðaliða og þá var bara sent út á alla kylfinga landsins, svo gott sem alla. Við fengum frábær viðbrögð. Við þurfum svona 80-90 sjálfboðaliða heilt yfir, margir eru til í að vera alla dagana. Því fleiri sem koma og bjóða sig fram, þeim mun auðveldara verður þetta. Við erum núna komin með einhverja 70 sjálfboðaliða svo eins og staðan er akkúrat núna að þá vantar okkur svona 10-15 í viðbót til þess að það þurfi ekki allir að vera alla fjóra keppnisdagana. Við fengum bara frábærar móttökur og þökkum kærlega fyrir það og vonandi fáum við aðeins fleiri í viðbót.“

Tékklistinn fyrir Íslandsmótið breyttist töluvert hjá GM, enda var upphaflega gert ráð fyrir áhorfendum á mótinu. Svo verður ekki.

„Við vorum búin að plana ýmislegt annað. Við ætluðum að vera með stúku, ætluðum að kynna kylfur og bridda upp á skemmtilegum leik. Hérna á 10. brautinni geta okkar bestu kylfingar slegið alla leið inn á flöt. Þá gátu allir sem sátu í stúkunni og fylgst með hollinu. Ef einhver af hollinu hitti inn á flöt í fyrsta höggi að þá hefðu allir í stúkunni fengið frían drykk að eigin vali. Því miður gengur það ekki upp,“ segir Ágúst.