Guðni Th. Jóhannesson var settur inn í embætti forseta Íslands við látlausa athöfn í Alþingishúsinu í dag. Hann hefur þar með sitt annað kjörtímabil.

Þegar að lokinni athöfninni ræddi Guðni við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur. Hann sagði að honum hugnaðist þær tillögur að kjörtímabil forseta verði lengt úr fjórum árum í sex.

Jafnframt sagði Guðni að skýra þyrfti vald- og verksvið forseta með nýjum ákvæðum í stjórnarskrá. Sömuleiðis nefndi Guðni að skýra þyrfti betur núverandi ákvæði stjórnarskrárinnar sem lúta að störfum forseta við óvenjulegar aðstæður á stjórnmálasviðinu.

Með því kvaðst hann fyrst og fremst eiga við stjórnarmyndanir og stjórnarslit ásamt atbeina forseta við myndun og slit ríkisstjórna. Eins þyrfti að skerpa á valdsviðið forseta þegar kæmi að þingrofi.