Hátt í hundrað ungmenni á aldrinum 10-21 árs hafa dvalið í sumarbúðum á Laugarvatni í sumar þar sem þau læra dans og leiklist undir handleiðslu reynslumikilla kennara. Mun fleiri stelpur en strákar tóku þátt í ár.

Chantelle Carey, danshöfundur og leikkona sem kennir í sumarbúðunum, segir að í sumarbúðunum fái ungmennin kærkomið tækifæri til að leggja stund á listina og njóta samtímis sveitasælunnar og náttúrufegurðarinnar sem Ísland hefur upp á að bjóða. Flest þeirra sem sækja sumarbúðirnar eru nú þegar með grunn í leiklist og hafa tekið þátt í hinum ýmsu dans- og leiksýningum, en vilja dýpka færni sína og þekkingu. Töluvert fleiri stelpur en strákar taka þátt og Aron Gauti Kristinsson, leikari og dansari, sem tekur þátt í námskeiðinu, segir að strákarnir séu þó auk hans þónokkrir. „En það er mikið meira af stelpum. Strákar eru ábyggilega bara feimnari við að sýna áhuga sinn sem er mjög brenglað því þetta er ótrúlega gaman,“ segir hann.

Sumarlandinn kíkti í heimsókn á Laugarvatn og ræddi við þátttakendur og kennara í sumarbúðunum.