Valdís Ingibjörg Jónsdóttir talmeinafræðingur er ósátt við að fólk sé hvatt til þess að öskra í nýlegri auglýsingaherferð Íslandsstofu. Það geti skaðað raddböndin, jafnvel óbætanlega. „Þú getur skemmt í þér röddina eins og allt annað í líkamanum.“
Öskur-auglýsingaherferð Íslandsstofu í útlöndum til að vekja athygli á ágæti Íslands sem áfangastaðar ferðamanna hefur vakið mikla athygli. Fjölmargir fylgismenn þagnarinnar hafa látið í sér heyra. Valdís Ingibjörg er meðal þeirra. Hún ræddi um röddina og mikilvægi hennar í Morgunvaktinni á Rás 1.
Valdís telur að þekkingarleysi sé að baki herferðinni. „Ég trúi ekki öðru. Ef að það fólk hefði vitað að þarna væri það um leið að bjóða upp á þetta, að fólk gæti skaðað raddböndin, þá hefði þessi herferð held ég ekki farið af stað, því það væri algjört ábyrgðarleysi.“
Megum ekki fara yfir hættumörkin
Fólk getur skaðað raddböndin við það að öskra, sem getur haft áhrif á röddina sem slíka, útskýrir Valdís. „Rödd er náttúrulega bara hljóð númer eitt tvö og þrjú, og er afrakstur af líkamsstarfsemi. Það er það sem gleymist nefnilega. Þú ferð ekki með bílinn þinn í viðgerð af því hljóðið er bilað. Heldur bendir hljóðið til þess að það er eitthvað að í vélinni. Og biluð rödd sem slík bendir til þess að það sé eitthvað að raddfærunum.“
Fólk segir til dæmis: „Ég öskraði úr mér röddina“ eða: „Ég söng mig hása.“ Fólk er því meðvitað um að það geti misst röddina, en ræðir oft um það í galgopaskap, eins og það lagist af sjálfu sér, segir Valdís Ingibjörg. Þetta sé þó hvort tveggja alvarlegt.
Hún líkir öskrum við vél í bíl. „Við erum með í mælaborðinu svona snúningsmæli og þar eru hættumörk vegna þess að við megum ekki þeyta vélina þannig að það fari yfir þessi hættumörk. Það er það sem gerist í öskrinu. Við erum að fara í hættumörkin og eiga það á hættu að rífa þarna eitthvað sem er jafnvel óbætanlegt.“
Hún bendir þó á að öskurþol fólks sé misjafnt og sumir ráði betur við öskrin en aðrir. Hins vegar eigi fólk alls ekki að láta reyna á þau þolmörk. Það geti haft alvarlegar afleiðingar.
Röddin er öryggisventill okkar. Við öskrum af sársauka eða reiði eða þegar við finnum til hræðslu. Það er eðlileg raddmyndun, segir Valdís. Hins vegar er það að öskra bara til að öskra ekki eðlilegt.
Raddfærunum er óhaganlega komið fyrir í líkamanum
Valdís segir þá að raddfærunum, sem staðsett eru í barkanum, í miðjum öndunarveginum, sé óhaganlega komið fyrir í líkamanum. Allt sem við setjum ofan í okkur; borðum, drekkum, öndum að okkur jafnvel, leggist beint ofan á raddböndin og getur skaðað þau. Þannig geti til dæmis reykingar, kaffi og þurrt loft farið illa með röddina auk öskra og misbeitingu raddarinnar.