Ritdómari Víðsjár skoðar vísindaskáldsöguna Astounding eftir Alec Nevala-Lee. Bókin sem varð til þess að vísindaskáldskapur varð að hálfgildings bandarískri bókmenntagrein. Sögusvið bókarinnar er það sem höfundurinn kallar „gullöld vísindaskáldskaparins,“ frá 1930-1960, og vísindaskáldskaparhöfundurinn og síðar leiðtogi Vísindakirkjunnar L. Ron Hubbard kemur eftirminnilega við sögu.
Björn Þór Vilhjálmsson skrifar:
Það var árið 2012 sem í fyrsta sinn var boðið upp á háskólagráðu í framtíðarfræðum í Finnlandi. Þýskaland hafði riðið á vaðið tveimur árum fyrr, eða 2010. Fræðigreinin á sér lengri sögu í bandaríska háskólakerfinu, þótt ekki sé um rótgróna háskólagrein að ræða þar heldur, fjarri því raunar, og allnokkur munur er á því hvernig henni er lýst, svona eftir því hvar drepið er niður fæti. Stundum er áhersla lögð á tölfræði og líkindaútreikninga, og tengsl dregin milli framtíðarfræða og félagsvísinda og jafnvel raunvísinda. Annars staðar er fræðigreinin staðsett innan hugvísinda og jafnvel litið á hana sem eins konar systurgrein bókmenntafræði og annarra menningargreina.
Framtíðarfræði í skáldsagnaformi
Ég nefni framtíðarfræði til sögunnar vegna þess að þegar ég varð þess fyrst áskynja að slík fræðigrein væri til varð mér hugsað til bókmenntagreinar sem ég hef alltaf verið dálítið áhugasamur um, en það er vísindaskáldsagan, og þess hvernig ýmsir brautryðjendur hennar litu einmitt á sig sem eins konar framtíðarfræðinga, sem hálfpartinn villtu á sér heimildir sem skáldsagnahöfundar.
Margir voru þeir einmitt menntaðir raunvísindamenn, sumir störfuðu jafnvel sem slíkir alla ævi og litu á skrifin sem aukastarf eða jafnvel áhugamál. Aðrir eins og Arthur C. Clarke, sem þekktastur er kannski fyrir að skrifa kvikmyndina 2001 með Stanley Kubrick, söðluðu um, skiptu um starfsvettvang og helguðu sig vísindaskáldskap þegar ljóst varð að hægt var að afla sér lifibrauðs með slíkri iðju.
Á sínu fyrra starfssviði er Clarkes til dæmis sérstaklega minnst fyrir skrif sín um gervihnetti á fimmta áratugnum, alllöngu áður en slík tækni varð að veruleika, og þá fyrir að hafa fyrstur bent á hugsanlegt mikilvægi þeirra fyrir fjarskipti. Þar voru framtíðarfræði á ferðinni sem sannarlega verðskulda tíu í einkunn.
Hluti þessarar sögu er sögð í nýlegri bók Alec Nevala-Lee, Astounding, sem út kom fyrir ekki svo löngu. Óhætt er að segja að Nevala-Lee geri þar grein fyrir vísindahlutanum í hugtakinu „vísindaskáldskapur“, sem eins og ég hef þegar gefið í skyn er oft býsna áþreifanlegur.
En eins og með ýmsar bókmenntagreinar sem blómstruðu á tuttugustu öldinni, og hér mætti nefna sakamálasöguna og hrollvekjuna, liggja rætur vísindaskáldsögunnar á þeirri nítjándu. Er þar oftast horft til tveggja höfunda, Frakkans Jules Verne og Bretans H. G. Wells. Verne er okkur auðvitað að góðu kunnur fyrir að staðsetja opið að miðju jarðar í Snæfellsjökli, auk þess sem hann árið 1872 hélt því fram í skáldsögu að hægt væri að ferðast umhverfis hnöttinn á 80 dögum, og þótti þá djarfur mjög.
Verne var maður 19. aldarinnar en Wells, sem var hartnær fjórum áratugum yngri gaf ekki út sína fyrstu skáldsögu fyrr en árið 1895, og tilheyrir frekar 20. öldinni, enda sennilega frægasti rithöfundur heims á millistríðsárunum. Það er reyndar athyglisvert að frægð hans á þeim tíma byggðist síður á verkunum sem við minnumst hans fyrir: Tímavélin, Innrásin frá Mars, Ósýnilegi maðurinn og Eyja Dr. Moreau voru allar skrifaðar á örfáum árum fyrir 1900.
Nei, þessar skáldsögur voru ekki ástæðan fyrir því að þjóðhöfðingjar heims biðu í röðum eftir að funda með honum, frá Stalín til Roosevelt, heldur var það staða Wells sem helsta framtíðarfræðings veraldar, höfundar verka á borð við Mynd þess sem verða skal frá árinu 1933, og annarra sem spáðu fyrir um framtíðina. Spjall við Wells þótti jafngilda tækifæri til að virða framtíðina augum.
Mjúkur og harður vísindaskáldskapur
Í dag eru slík verk að mestu gleymd, það eru stuttu og snörpu skáldsögurnar áðurnefndu sem Wells skrifaði í blábyrjun ferilsins sem lifa. Þá er orðið hefðbundið þegar litið er um öxl að kenna þær tvær meginstefnur sem eftir áttu að móta vísindaskáldskap á tuttugustu öldinni við ísbrjótana tvo, Verne og Wells.
Í einni af sínum frægustu skáldsögum, Ferðinni til tunglsins, lætur Verne söguhetjur sínar fljúga til tunglsins, og sveima svo í sporbaug þess, án þess að lenda. Ástæðan fyrir því að ekki var lent, enda þótt helsta afrekið hefði kannski falist í slíkri lendingu, var sú að Verne datt engin rökleg leið í hug til að gera söguhetjum sínum kleift að snúa aftur til jarðar; geimskutlan í bókinni komst í gegnum lofthjúp jarðar með því að vera skotið úr fallbyssu en engin fallbyssa var á tunglinu og því engin leið að skjóta þeim til baka. Þeir hefðu verið fastir og að mati Verne voru það ófullnægjandi endalok.
Svo bundinn var hann af vísindalegu raunsæi og til hans er „harður“ vísindaskáldskapur rakinn, sú tegund vísindaskáldskapar sem áðurnefndur Clarke iðkaði, sögufléttuna verður að vera hægt að útskýra með vísindum á sannfærandi hátt. Mjúkur vísindaskáldskapur er hins vegar rakinn til Wells, sem vissi vel að ekki væri hægt að byggja tímavélar, né gætu menn gert sig ósýnilega. En hann notfærði sér þessar óvísindalegu grunnhugmyndir til að segja sögur sem fjölluðu ekki síður um samtímann en framtíðina. Í seinni tíð er Philip K. Dick trúlega þekktasti höfundurinn sem kenna má við mjúkan vísindaskáldskap.
Frakki og Breti, það segir líka sína sögu. Frægasta vísindaskáldskaparmyndin, Metropolis, var þýsk. Vísindaskáldskapur var með öðrum orðum evrópsk iðja framan af 20. öldinni. Það breyttist hins vegar í kringum síðari heimsstyrjöldina og óhætt er að halda því fram að sú hugmynd sem við í dag höfum um greinina sé umfram annað mótuð af bandarískum skáldskap og, þetta er jafnvel enn mikilvægara, bandarískum kvikmyndum.
Sagan af því hvernig vísindaskáldskapur færði sig yfir Atlantshafið, frá Evrópu til Bandaríkjanna, og varð að hálfgildings bandarískri bókmenntagrein, er sögð af Alec Nevala-Lee í áðurnefndri bók, Astounding. Þegar ég fyrst nefndi hana hér áðan hlífði ég ykkur að vísu við undirtitlinum, sem ég ætla að láta flakka núna. Bókin heitir fullu nafni Astounding: John W. Campell, Isaac Asimov, Robert Heinlein, L. Ron Hubbard og gullöld vísindaskáldskaparins.
Vísindaskáldskapur og Vísindakirkja
Ekki er víst að höfundarnir fjórir sem þarna eru nefndir í runu séu öllum kunnugir. Það væri kannski helst L. Ron Hubbard sem hringir bjöllum, en þá ekki endilega sem vísindaskáldsagnahöfundur heldur sem guðið að baki Vísindakirkjunni, samtaka sem eitt sinn nutu allmikillar virðingar, undarlega sem það hljómar, einkum utan Bandaríkjanna þar sem Scientology er held ég gjarnan á lista með Cosa Nostra yfir sálufélög sem ekki eru talin samfélagslega uppbyggileg.
Það er reyndar forvitnilegt að á þriggja ára tímabili lék þekktasti talsmaður kirkjunnar, Tom Cruise, í kvikmyndum sem byggðar eru á skáldverkum tveggja rithöfunda sem ég hef þegar minnst á, Minority Report árið 2002, sem byggð er á smásögu eftir Philip K. Dick, og svo War of the Worlds árið 2005, sem byggð er á samnefndri skáldsögu H.G. Wells. En jú, Hubbard var fyrst vel þekktur vísindaskáldskaparhöfundur áður en hann söðlaði um og gerðist trúarleiðtogi og er tvímælalaust með skrautlegri persónum í bók Nevala-Lee.
Sögusvið bókarinnar, gullöldin í titlinum, er 30 ára tímabil frá 1930 til 1960, og það sem er að gerast í bakgrunni frásagnarinnar er annars vegar það að vísindaskáldskapur 19. aldar öðlast sína nútímalegu mynd, verður að greininni sem við í dag þekkjum, og þá ekki síst í meðförum höfundanna í undirtitlinum. Hitt er að saga tilfærslu vísindaskáldskapar að miðlægri stöðu í menningunni er sögð, greinin kemur fram sem jaðarbókmenntagrein en þegar sögunni lýkur sem Nevala-Lee segir er um vinsæla undirdeild meginstraumsins að ræða.
Astounding er auðvitað fyrst og fremst sögulegt verk sem höfðar til áhugafólks um vísindaskáldskap, og er í því sambandi bókstaflega skyldulesning að ræða. En jafnvel þótt þið séuð ekki nema örlítið forvitin um þessa undirgrein bókmenntanna, og kannski líka um menningarsögu tuttugustu aldarinnar, þá er þetta bók sem ég held að gæti komið ykkur á óvart.