Tuttugu og sex þátttakendur á Rey Cup fótboltamótinu leituðu á bráðamóttöku Landspítalans vegna meiðsla, þar af fimmtán með beinbrot. Yfirlæknir á deildinni segir þetta óvenju mikið og kanna þurfi hvort hægt sé að gera ráðstafanir til að draga úr slysum.

 

Mikið álag var á bráðamóttöku Landspítalans um helgina, að sögn Hjalta Más Björnssonar yfirlæknis deildarinnar.

„En einkum virtist vera áberandi að það leituðu til okkar alls 26 ungmenni sem að höfðu hlotið áverka eftir að hafa verið að keppa á Rey Cup og af þeim reyndust fimmtán vera með brotin bein, sem að okkur þykir vera dálítið mikill fjöldi af einu íþróttamóti.“

Hjalti Már segir að ekki hafi alltaf verið haldið utan um tölur af þessu tagi, en miðað við erlendar rannsóknir teljist þetta mikið.
Fótboltamótinu Rey Cup sem haldið var í Laugardal í Reykjavík er nýlokið, en börn og unglingar, strákar og stelpur, kepptu á mótinu og voru þátttakendur á milli 1.400 og 1.500. 

„Og það er umhugsunarvert að ef að ungmenni eru að keppa á íþróttamóti og um einn af hverjum hundrað hlýtur beinbrot af leiknum.“

Hann telur rétt að skoða hvort eitthvað sé hægt að gera til að draga úr slysatíðninni. Ungmennin þurfi að hreyfa sig og fá þjálfun, en einnig þurfi að gera allt sem hægt sé til að forða þeim frá slysum. Þrátt fyrir fjölda beinbrota og áverka, meiddist þó enginn alvarlega.

„Nei, í flestum tilfellum eru þetta minniháttar áverkar, útlimabrot í langflestum tilfellum, og mér vitanlega er enginn alvarlega slasaður eftir þetta mót.“