...og að það sé fólki miklu hugleiknara en það vill viðurkenna, segir Sjöfn Hauksdóttir, ljóðskáld, sem gaf nýverið út kúl ljóðabók með frekar ókúl nafni, nefnilega Úthverfablús. Áður hefur Sjöfn sent frá sér ljóðabókina Ceci n´est pas une ljóðabók. Sjöfn trúir ekki á innblástur; ljóðagerð og önnur skrif snúist fyrst og fremst um úthald.
„Þetta snýst ekki um innblástur heldur bara að setjast niður og gera það. Það þarf ekkert endilega að hafa eitthvað að skrifa um. Maður verður að setjast niður og skrifa og þá kemur eitthvað. Ef maður biði stöðugt eftir innblæstri þá kæmi í besta falli ein góð lína á tveggja ára fresti,“ segir Sjöfn sem nú hefur nýlokið við að skrifa glæpasögu. „Ég skrifa fyrst og fremst af því mér finnst það gaman og ef einhver les það þá og finnst það líka gaman þá er það fínt en útgáfan skiptir mig ekki miklu máli.“
Skriftir eru vissulega að stórum hluta vinna. Það er þó erfitt að ímynda sér að útgáfa skipti höfund, sem á þremur árum hefur sent frá sér tvær ljóðabækur og er með skáldsögu um glæp framinn í góðu veðri á kantinum, ekki einhverju máli.
Hispurslaus og frumleg ljóðabók
Sjöfn Hauksdóttir fór út í heim og lærði myndlist, kom síðan heim aftur og hóf nám í bókmenntafræði og hefur nú lokið meistaraprófi og stefnir, að eigin sögn, á doktorinn. Fyrir tveimur árum gaf hún út ljóðabókina Ceci n'est pas une, ljóðabók sem vakti nokkra athygli fyrir hispursleysi og frumlega nálgun að klassískum temum eins og ástinni og djamminu, kynlífi og hvaðeina.
Í nýju ljóðabókinni Úthverfablús er Sjöfn tematískt á svipuðum slóðum en ljóðmálið hefur þést. Bókin er skipulagðari en sú fyrri og spurningarnar um núið og framtíðina áleitnari. „Bókmenntafræðin er fullkomin hilla fyrir mig að lesa, skrifa dót og hugsa málið.“ Í ljóðabókunum báðum má og finna ýmsar vísanir í fræðin. Úthverfablús hefst til að mynda á eftirfarandi ljóðum:
Dauði
Ljóðmælandi lét lífið í gær
hengdi sig í dauða höfundarins
og eigin tilgangsleysi.
Lesanda er nú frjálst að leggja eigið mat á verkið.
Draumar
Og loksins hafa draumar þínir ræst
og ljóðin þín eru á útsölu.
Af hverju ætti hugverkið að kosta
hundrað sinnum meira en sálin?
Höfundurinn ekki alltaf ljóðmælandinn
„Bókin varð að byrja á þessum ljóðum,“ segir Sjöfn, „umræðan um höfundinn er með allt öðrum hætti í bókmenntafræðinni en í venjulega lífinu, mikið talað um stöðu höfundarins og spurt hver hann sé og svo framvegis. Í alvöru heiminum finnst fólki hins vegar alltaf eins og ég höfundurinn sé að tala, en ég er ekkert alltaf ljóðmælandinn.“
Ljóðabókin Úthverfablús skiptist í sex hluta þar sem frá ólíkum sjónarhornum er fjallað um ástina eða „meðvirkni í fallegum búningi.“ Einnig er fjallað um miðjuna og jaðarinn, miðbæinn og úthverfin og um endurtekninguna, hringrásina. Hér er spurt beinskeyttra spurninga og staðalmyndir gaumgæfðar, oft á kaldhæðnislegan hátt.
AL
Verkfæri húsbóndans munu kannski aldrei
jafna húsið hans við jörðu en
þau nýtast samt ágætlega
ef þú stingur þeim einu á eftir öðru inn í hann
af móðurlegri umhyggju
og hlustar svo á grátandi nautn
viðkvæmrar karlmennsku