Tveir starfsmenn Lögreglunnar á Suðurnesjum hafa kvartað undan einelti á vinnustaðnum til fagráðs lögreglu. Málið er nú á borði dómsmálaráðuneytisins. Þá hefur uppsögn fulltrúa hjá embættinu í fyrra verið metin ólögmæt.
Kvartað undan tveimur yfirmönnum
Starfsmennirnir tveir leituðu til fagráðs lögreglunnar fyrir um mánuði. Samkvæmt heimildum fréttastofu kvörtuðu þeir undan tveimur yfirmönnum. Annar þeirra sem kvartað var yfir er Alda Hrönn Jóhannsdóttir, sem er yfirlögfræðingur hjá Lögreglustjóranum á Suðurnesjum.
Alda Hrönn hafði stöðu sakbornings í rannsókn setts héraðssaksóknara í LÖKE-málinu svokallaða árið 2016, en það mál var látið niður falla. Bæði Alda Hrönn og hinn yfirmaðurinn sem situr undir ámæli eru nú í veikindaleyfi frá störfum. Hvorugt þeirra vildi tjá sig um málið.
Ólögmæt uppsögn og bótaskylda
Fleira hefur gengið á hjá embætti lögreglunnar á Suðurnesjum undanfarið. Í fyrra var fulltrúa á lögfræðisviði - sem Alda Hrönn stýrir - sagt upp störfum, en ríkislögmaður hefur komist að þeirri niðurstöðu að uppsögnin hafi verið ólögmæt. Þetta staðfestir lögmaður fulltrúans. Ríkið hefur viðurkennt bótaskyldu vegna uppsagnarinnar.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, vildi ekki tjá sig við fréttastofu þegar eftir því var leitað.
Samkvæmt upplýsingum frá embætti Ríkislögreglustjóra er eineltismálið á borði dómsmálaráðuneytisins. Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hafa engin svör borist frá ráðuneytinu við fyrirspurnum fréttastofu um málið.