Andrés Indriðason, dagskrárgerðarmaður, rithöfundur og kvikmyndagerðarmaður er látinn 78 ára að aldri. Andrés vann rúma hálfa öld að dagskrárgerð í sjónvarpi og kom þar að ýmsum af vinsælustu þáttum RÚV.

Hann skrifaði einnig fjölda bóka sem nutu mikilla vinsælda og leikrit hans voru sett upp bæði á sviði og í útvarpi. Andrés skrifaði einnig handrit að og leikstýrði kvikmyndinni Veiðiferðinni.

Andrés fæddist í Reykjavík 7. ágúst 1941. Foreldrar hans voru Indriði Jóhannsson lögregluþjónn og Jóna Kristófersdóttir. Hann lætur eftir sig eiginkonu, Valgerði Ingimarsdóttur, tvær uppkomnar dætur og þrjú barnabörn. 

Andrés hafði unnið um eins árs skeið sem blaðamaður á Morgunblaðinu og við kennslu þegar hann sá auglýst eftir fólki til starfa í Sjónvarpinu, ári áður en það tók til starfa. „Ég talaði við framkvæmdastjórann, Pétur Guðfinnsson, sem var eini starfsmaðurinn sem hafði verið ráðinn. Ég spurði hann hvernig starfið væri og hann sagðist ekki vera með það á hreinu, en þetta væri eitthvað í sambandi við upptökur."

Þannig lýsti Andrés upphafinu þegar fréttastofa RÚV ræddi við hann 2. október 2015. Þá hafði Andrés unnið á RÚV í hálfa öld. 
Andrés var annar tveggja dagskrárgerðarmanna sem ráðnir voru til starfa í upphafi, hinn var Tage Ammendrup. Þeir og aðrir starfsmenn hinnar væntanlegu sjónvarpsstöðvar voru sendir til Danmerkur í nám hjá danska ríkisútvarpinu. Hálfri öld síðar var Andrés enn að og tímamótunum fagnað með tertu á göngum Ríkisútvarpsins. Þá var ekkert fararsnið á Andrési. „Skarphéðinn [Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps] sagði að ég fengi tertu næst á 60 ára afmælinu." sagði Andrés og hló.

Eftirminnilegir þættir og persónur


Á rúmlega hálfrar aldar ferli í dagskrárgerð á Ríkisútvarpinu kom Andrés að gerð fjölda þátta og heimildarmynda. Hann skrifaði meðal annars leikþætti fyrir Stundina okkar snemma á áttunda áratugnum og áttu tvær persónur þeirra eftir að lifa lengi með þjóðinni. Það voru þeir Glámur og Skrámur, túlkaðir af Halla og Ladda og í formi brúða sem Gunnar Baldursson hannaði.  Þeir slógu þegar í gegn í Stundinni okkar, komu út á plötu ári síðar og birtust svo í ýmsum myndum næstu áratugi.
„Ég held ég gleymi seint fyrsta áramótaskaupinu. Það var í þá daga þegar ekki var hægt að stoppa upptökutækið, ekki hægt að klippa neitt saman, þetta rúllaði bara í heilan klukkutíma,“ sagði Andrés í viðtali við Helgarpóstinn 1985 þegar hann fjallaði um störf sín. Eftir fyrsta skaupið átti Andrés eftir að vinna að mörgum áramótaskaupum, ýmist sem upptökustjóri eða höfundur.
Spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur eru einhverjir langlífustu þættir í sjónvarpi hér á landi. Þeim stýrði Andrés um rúmlega tveggja áratuga skeið, frá 1991 til 2012. Hann sá um dagskrárgerð þeirra og stýrði lengi upptökum og útsendingu þeirra, og hafði mikil áhrif á þróun keppninnar.
Árið 1980 var kvikmyndin Veiðiferðin frumsýnd. Andrés skrifaði handritið að myndinni og leikstýrði henni. 

Vinsæll rithöfundur

Andrés hefur sent frá sér fjölda bóka auk þess sem leikrit hans hafa verið flutt á sviði og í útvarpsleikhúsum alls staðar á Norðurlöndum. Hann lagði áherslu á að skrifa bækur fyrir börn og unglinga. 
„Svo var það árið ´79 að ég sendi sögu í samkeppni sem Mál og menning efndi til, „Lyklabarn“, og datt í þann lukkupott að hljóta verðlaun. Þetta var geysileg uppörvun fyrir mig. Upp frá þessu var eins og skrúfað væri frá krana, ég hellti mér út í ritstörfin,“ sagði Andrés í viðtali sem birtist í Helgarpóstinum árið 1985, þegar hann hætti í föstu starfi hjá Sjónvarpinu til að helga sig skrifum, þó með þann möguleika að sinna dagskrárgerð sem verktaki. Samkeppnin sem Andrés minntist á var haldin í tilefni barnaárs Sameinuðu þjóðanna.

Síðar átti hann eftir að hreppa Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir bókina Polli er ekkert blávatn, verðlaun Námsgagnastofnunar í samkeppni um létt lesefni fyrir börn fyrir bókina Það var skræpa og viðurkenningu Barnabókaráðs Íslands, Íslandsdeildar IBBY fyrir bókina Manndómur. Meðal annarra bóka hans má nefna Viltu byrja með mér, Töff týpa á föstu, Bara stælar, Fjórtán ... bráðum fimmtán og Stjörnustæla.
Köttur úti í mýri var fyrsta leikrit Andrésar sem var sett upp, í Þjóðleikhúsinu árið 1974. Hann átti eftir að rita fjölda leikrita, ekki síst fyrir útvarp.