Rannsóknir á hafsbotni hafa leitt í ljós víðfeðm kóralrif undan suðurströnd Íslands. Sum þeirra eru gjörónýt eftir veiðarfæri en vísindamenn vonast til að finna fleiri svæði.

Flestir Íslendingar tengja væntanlega kóralrif við Ástralíu enda er þar stærsta og frægasta kóralrif heims. Íslenskir vísindamenn hafa hins vegar fundið kóralrif undan ströndum Íslands. Upp úr aldamótum hófu þeir að hafa samband við skipstjóra og spyrjast fyrir um möguleg svæði og fyrir um áratug hófst umfangsmikil kortlagning á hafsbotninum.

Niðurstaðan er sú að fyrir sunnan land, út fyrir Reykjanesskaga og jafnvel vestar er að finna víðáttumikil kóralrif. „Þetta eru djúpsjávarkóralar. Þeir kjósa kaldari sjó, finnast dýpra. Kóralarnir okkar hér við Ísland finnast á 200-600 metra dýpi og þetta eru í rauninni sömu týpurnar af kórölum, þetta eru steinkóralar. En þessir kóralar hér við Íslands eru rándýr, þeir nýta sér ekki sólarljós eins og kóralarnir við Ástralíu gera,“ segir Steinunn Hilma Ólafsdóttir, sérfræðingur hjá Hafrannsóknastofnun sem er í hópi vísindamanna sem vinnur að kortlagningu rifanna.

Veiðarfæri skemma rifin

Kóralrifin í Ástralíu hafa átt mjög undir högg að sækja og stór hluti kórallanna hefur drepist á síðustu árum vegna hækkandi sjávarhita. Ekki er talið að aukinn sjávarhiti ógni íslenska kóralnum en þó sáust merki um miklar skemmdir. „Við höfum séð kóralsvæði sem eru ónýt ef svo má segja, gjörónýt vegna þess að þau hafa lent á veiðislóðum. Síðan höfum við séð kóralsvæði sem eru virkilega falleg, stór og mikil kóralsvæði með stórum kóralrifum.“

Nokkrum veiðisvæðum hefur þegar verið lokað til að vernda rifin. Steinunn Hilma telur að kóralsvæðin við Ísland séu enn fleiri en þau sem þegar er búið að kortleggja. „Við vonumst til að geta haldið áfram að skoða þessi svæði því það eru fleiri kóralsvæði þarna úti sem við myndum gjarnan vilja ná utan um, hvar þau eru.“