„Fölsun er í eðli sínu eitthvað sem ógnar einhverjum mörkum,“ segir Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði. „Fölsunin spyr alltaf hvað er ekta. Það er oft mjög erfitt að ákveða hvar mörkin liggja.“

Falsanir eru margvíslegar og til misjafnra verka gerðar. Flestir hugsa kannski um málverk þegar rætt er um falsanir, enda oft talað um að áhrifamestu falsarar sögunnar hafi verið málverkafalsarar líkt og Hollendingurinn Han van Meegeren. Meegeren var handtekinn árið 1945 fyrir að selja nasistum hollensk menningarverðmæti sem reyndust svo vera allt annað.

Auðvitað er þó hægt að falsa margt annað og mætti jafnvel ganga svo langt að halda því fram að falsanir séu orðnar sjálfsagður hluti hversdagsins í samtímanum.

Þær ljósmyndir sem við sjáum á samfélagsmiðlum hafa til dæmis lítið heimildargildi, enda ómögulegt að útiloka að átt hafi verið við þær. „Hversu mikið má sníða af undirhökunni þangað til þetta er hætt að vera ljósmynd og er orðið eitthvað annað tjáningarform?“

Málið er enn stærra og hefur afdrifaríkari afleiðingar. Fölsun getur samkvæmt Gunnþórunni snúist um val á einni mynd umfram aðra og slíkt val hefur vald til þess að móta viðhorf almennings til mikilla atburða. Gunnþórunn nefnir sem dæmi mótmælaölduna eftir að George Floyd var drepinn. „Hvernig myndir voru birtar af löggunni? Hvernig myndir voru birtar af mótmælendum? Hvar birtust ákveðnar tegundir af myndum og hvar ekki? Þetta segir manni náttúrlega alveg allt um pólitíska afstöðu miðilsins.“

Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði, ræddi mörkin milli raunveruleikans og falsana og hlutverk þess sem segist vera annað en það er í Tengivagninum. Hægt er að hlusta á viðtalið í heild sinni í spilaranum.